146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

vopnalög.

235. mál
[12:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég svari nú síðustu spurningunni sem til mín var beint þá kann að vera að menn hafi haft í huga hin ýmsu lögreglustjóraembætti á landinu en ég get líka tekið undir að það kann að vera eðlilegt að þrengja þetta enn frekar svo alls jafnræðis sé líka gætt um hverja tilkynningu, það fari allar tilkynningar í sama farveg. Sjálfsagt er að skoða það.

Hvað það varðar að verið sé að gera einkaaðila, þá sem eru að selja þessi efni, að einhvers konar efnalöggum, er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð og frumvarpið tiltekur reyndar líka afmarkaða þætti sem eru til leiðbeiningar um hvað geti talist grunsamleg innkaup, grunsamleg kaup á efnum. En við höfum dæmi um að einkaaðilum sé falið að fylgjast með og tilkynna hugsanleg brot. Þá dettur mér helst í hug allar fjármálastofnanir sem ber að tilkynna um peningaþvætti eftir ákveðnum reglum. Menn vinna það auðvitað eftir skýrum reglum um hvað teljist til grunsamlegra millifærslna og viðskipta með fé. Það mætti segja að þetta sé sambærilegt, hliðstætt. Það er mikilvægt í þessu samhengi að reglurnar séu alveg skýrar þannig að menn fari ekki fram úr sér hvað það varðar. En þetta hafa menn hins vegar talið mjög nauðsynlegt til þess að draga úr þeirri hættu sem menn meta að sé þó nokkur í hinum vestræna heimi á sprengiefnagerð ófaglærðra í annarlegum tilgangi. Því miður stöndum við bara frammi fyrir því að þurfa einhvern veginn að bregðast við því. Það gerir þetta frumvarp.