146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar sl. Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar og er tilgangurinn sá að skýra betur efni laganna, annars vegar að því er varðar frestun á réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar þegar um er að ræða tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd og hins vegar varðandi veitingu dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á efni eða tilgangi gildandi laga.

Markmiðið er fyrst og fremst að eyða óvissu sem upp hefur komið um skýringu á ákvæðum annars vegar 35. gr. og hins vegar 70. gr. laganna. Frumvarpið felur í sér eftirfarandi atriði:

Tekinn er af allur vafi um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar þess efnis að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar stofnunin hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og umsækjandi kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki. Um leið er óvissu eytt um mörk 1. og 2. mgr. 35. gr. laganna.

Þá er fellt brott ákvæði 3. mgr. 35. gr. um að ráðherra geti í reglugerð mælt fyrir um málsmeðferð kærunefndar útlendingamála við afgreiðslu beiðna um frestun réttaráhrifa, enda er það ákvæði óþarft og eingöngu til þess fallið að skapa réttaróvissu.

Þá er fellt brott það skilyrði 70. gr. að hjúskapur þurfi almennt að hafa varað í eitt ár eða lengur til að geta orðið grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis. Hér er um að ræða breytingu til fyrra horfs, enda var það ekki vilji þingsins að herða skilyrði til fjölskyldusameininga þegar um hjúskap er að ræða og er það því hér með leiðrétt. Í rauninni er verið að leiðrétta prentvillu eða uppsetningu á orðalagi ákvæðis 70. gr.

Á síðasta ári þrefölduðust umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi þar sem mikill meiri hluti umsækjenda reyndist með tilhæfulausar umsóknir. Yfir 99% synjunarhlutfall er hjá þeim umsækjendum sem mest um ræðir á báðum stjórnsýslustigum hér á landi jafnt sem Evrópu allri. Eins og ítrekað hefur komið fram hefur sá fjöldi sem kom til landsins á síðasta ári verið fordæmalaus þar sem um er að ræða ríkisborgara landa þar sem ekki ríkir stríðsástand eða borgarastyrjöld og viðkomandi aðilar eru auk þess með ferðafrelsi hingað til lands jafnt sem um alla Evrópu.

Því er brýnt að Alþingi taki skýra afstöðu til þess að neyðarkerfi flóttamanna sé ekki nýtt í þessum tilgangi. Lagabreyting þessi er mikilvægur liður í aðgerðum stjórnvalda við að sporna gegn fjölda tilhæfulausra umsókna hingað til lands og hraða málsmeðferð þeirra mála. Sambærilegt ákvæði um frestun réttaráhrifa var samþykkt síðastliðið haust og aftur framlengt til þriggja mánaða í lok árs og mun sú framlenging renna út 1. apríl næstkomandi. Þess vegna er hér lagt til að ákvæðið gildi út árið 2017, enda brýnt verkefni stjórnvalda að tryggja hraða málsmeðferð og spyrna gegn fjölgun tilhæfulausra umsókna og að umsækjendum sem reynast vera með slíkar umsóknir sé snúið hratt og örugglega til heimaríkis.

Að því sögðu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.