146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[14:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Nichole Leigh Mosty fyrir spurningu hennar og ætla að reyna að svara henni eftir bestu getu. Ég verð þó taka það fram að ég er gagnrýnandi á þetta frumvarp en ekki flutningsmaður þess. (NicM: Ég veit.) Ég veit að hv. þingmaður veit það, en það er náttúrlega aðkoma mín að þessu máli og hluti af rökstuðningi mínum. Ég bara sé ekki hvernig þetta er hægt, þ.e. hvernig sveitarfélög sem ekki myndu innheimta einhvers konar lágmarksútsvar, eigi hreinlega að geta uppfyllt lögbundið hlutverk sitt með þessum hætti. Ég sé bara ekki neina sanngirni í því hvernig það ætti að vera hægt með því að taka peninga inn á einhvern annan hátt nema vegna þess að þau ætla að skilgreina lögbundna hlutverkið sitt svo rosalega þröngt og gera eins lítið sem þau mögulega geta og fæla þar með jafnvel fólk frá sem þarf á þjónustu að halda.

Við vitum alveg að það er misjafnt eftir sveitarfélögum hversu stórt hlutfall fatlaðs fólks býr í þeim. Það kemur líka fram í rannsókninni sem ég vitnaði í áðan. Ég held að það sem gerist sé að sveitarfélögin muni þá veita mjög takmarkaða og litla þjónustu en velta byrðunum yfir á önnur sveitarfélög sem veita meiri þjónustu og innheimta hærra útsvar af íbúum sínum. Eðli málsins samkvæmt verður það til þess að fatlað fólk flytur frekar í þau samfélög. Þannig er maður í rauninni búinn að búa til einhvers konar eilífðarvél þar sem skattalega samspilið og þjónustan haldast í hendur og maður ýtir fólkinu í burtu sem þarf á kostnaðarsömu þjónustunni að halda.