146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:19]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að eiga frumkvæði að þessari mikilvægu og áhugaverðu umræðu og einnig innleggi hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst líka þær spurningar sem hv. þm. Óli Björn Kárason kemur með mjög athyglisverðar og fróðlegt að heyra hvernig utanríkisviðskipti hafa verið að aukast við Kína og EFTA-ríkjanna við þriðju ríki. Það sýnir að utanríkisstefna okkar hefur verið á réttri leið og við sjáum það núna líka til að mynda að hagvöxturinn fyrir síðasta ár er 7,2% og hann er drifinn áfram á síðustu tveimur ársfjórðungum að hluta til af utanríkisverslun sem var neikvæð síðustu tvo ársfjórðungana. Þetta sýnir enn og aftur að hagsæld Íslands byggir auðvitað á því að við eigum gott og greitt aðgengi fyrir okkar vörur og þjónustu, enda er það svo að við komumst í raun og veru fyrst á ákveðið þróunarstig þegar við förum að flytja út vörur okkar og þjónustu.

Það er tvennt sem mig langaði kannski aðeins að minnast hérna sérstaklega á. Það er framtíðarfyrirkomulagið sem þarf að vera á samskiptum okkar við Breta. Hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi hvað viðskipti okkar við Breta skipta okkur miklu máli hvað varðar útflutning, bæði vörur og þjónustu. Það er kannski fernt sem kemur þar til álita að mínu mati, fjórar sviðsmyndir. Sú fyrsta er að gerður verði djúpur tvíhliða efnahagssamningur við Breta. Ég held að við þurfum að huga mjög verulega að því að vinna að því vegna þess að við sjáum að það eru alls konar blikur á lofti er varða samskipti við Breta. Sumir segja að það muni ganga mjög erfiðlega fyrir ESB og Bretland að ná samkomulagi, þess vegna þurfum við að vera stöðugt á tánum í samskiptum við Breta.

Annað sem ég var mjög ánægð að heyra í framsögu utanríkisráðherra er að hann nefndi að hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands væri aðild okkar að EFTA. Þannig (Forseti hringir.) að það er mjög skýrt hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þeim efnum. Ég fagna því.