146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:29]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða um Brexit og ég veit að við hæstv. utanríkisráðherra erum ekki jafn bjartsýnir þegar kemur að Brexit. En umræðan snýst ekki um þá mismiklu bjartsýni heldur um hagsmuni Íslands. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að nokkrum hlutum í tengslum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Geta Bretar og Íslendingar samið um fríverslun sín á milli áður en af Brexit verður? Geta þeir hafið þær viðræður og klárað þær?

Svo langar mig að vita:

Hvað gerist fyrsta dag eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu ef ekki nást neinir samningar milli Íslands og Bretlands og ef við lendum í svokölluðu „Hard Brexit“? Hver er sem sagt versta mögulega útkoman úr þessu ferli?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja:

Hve langan tíma reiknar ráðherra með að það taki, eftir Brexit, þangað til nýr fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands liggur fyrir, annaðhvort tvíhliða samningur eða þá gegnum EFTA eða annað fyrirkomulag? Mun það gerast sama dag og Bretland gengur úr ESB? Gerist það viku seinna, mánuði seinna, ári seinna? Hverjar eru væntingar ráðherrans til þessa?

Og ef við göngum til viðræðna um fríverslun við Breta, hvaða væntingar hefur ráðherra til þess samnings? Yrði um að ræða gagnkvæman innflutning á lifandi dýrum? Yrði um að ræða gagnkvæman innflutning á hráu kjöti? Telur ráðherra að um verði að ræða sambærilegan samning og er í EES í dag? Eða telur hann að það verði eitthvað minna?

Að lokum, frelsi snýst ekki aðeins um fríverslun, EES-samningurinn veitir okkur einnig rétt, borgurum þessara tveggja ríkja, til að flytja á milli og setjast að. Er ekki algjörlega öruggt að við stefnum að því að það haldist áfram eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu?