146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir samstöðuna um megininntakið í þessari umræðu, sem er fríverslun. Samstaða um það, um aðild okkar að EFTA skiptir bara mjög miklu máli.

Ég get hins vegar ekki lofað því að svara öllum þeim spurningum sem hér voru lagðar fram. Mér fannst sumt í umræðunni, og ætla ekki að setja ofan í við einn eða neinn, byggt á ákveðnum misskilningi. Ég geri allt það sem ég get til að kalla fram upplýsingar um bæði afleiðingarnar af fríverslunarsamningunum og hver þróunin verður á næstu árum. Hvað sem okkur finnst er ákveðin breyting varðandi mannfjöldaþróun og efnahagskerfið í heiminum. Það liggur alveg fyrir. Gerðar hafa verið langar skýrslur um það hvernig þessi mál hafa þróast. Vægi þeirra sem standa okkur næst mun minnka mjög mikið í samanburði við aðra. Í því felast bara tækifæri en við þurfum að taka á móti þeim tækifærum.

Varðandi samskiptin við Bretland og ESB: Ég bara trúi því ekki að þeir sem tala hvað harðast á vettvangi ESB um að þeir ætli að refsa Bretlandi fyrir að hafa ákveðið með lýðræðislegum hætti að ganga úr þeim samtökum, að það muni gerast. Það mun koma verst niður á íbúum ESB. Langverst. Ég vil ekki trúa því að það gerist. Það væri vont fyrir alla. Það væri mjög slæmt ef það kæmu hindranir á viðskipti í Evrópu af því að ein þjóð ákveður að vera ekki lengur í einu af því samstarfi sem við erum í.

En við þurfum að fara yfir það og bera saman hver er staða okkar er t.d. varðandi viðskiptastefnu okkar, Noregs, ESB og svo framvegis, og sjá hvernig við stöndum og hvað má betur fara. Ég er kominn nokkuð á veg með þær upplýsingar en ætla að koma fram með þær upplýsingar með skipulegri hætti og þá væntanlega í skýrslu utanríkisráðherra þannig að við getum rætt það út frá þeirri stöðu.

Ég er enn sannfærðari núna eftir þessa stuttu umræðu um að við eigum að stíga það skref að skipta utanríkismálanefnd upp í tvær fastanefndir; annars vegar nefnd sem er með EES, (Forseti hringir.) EFTA og fríverslunarmálin, sem væri þá fastanefnd, og síðan hefðbundna utanríkismálanefnd. Þetta er bara stórt og skiptir það miklu máli. Ég er mjög ánægður með þann samhljóm sem hér kom fram og við verðum að ræða þetta mál á dýptina. Ég biðst velvirðingar, virðulegi forseti, en allar þær spurningar (Gripið fram í: Svaraðu þeim þá.) sem hér komu gerðu það að verkum að ég náði (Gripið fram í.) ekki að fara yfir þær á þessum tveimur mínútum. (Gripið fram í.)

(Forseti (TBE): Hljóð í þingsal.)