146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgangna.

234. mál
[15:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði samgangna. Fyrst og fremst er hér um að ræða innleiðingu á alþjóðlegum skuldbindingum okkar. Í stað þess að flytja þessar breytingartillögur sem fimm mismunandi frumvörp var ákveðið að sameina þær í eitt frumvarp til einföldunar. Tillögurnar eiga það sammerkt að stefnt er að því að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er vegna skuldbindinga ríkisins.

Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á takmörkunarfjárhæðum 177. gr. siglingalaga, sú grein fjallar um skaðabótakröfur farþega vegna lífs- og líkamstjóna. Eðli máls samkvæmt fylgir töluverð áhætta allri starfsemi á sjó og óhöpp og slys geta leitt til verulegs tjóns og kostnaðar, ekki einungis á skipum, farþegum og farmi, heldur einnig vegna mengunartjóna.

Almennar reglur skaðabótaréttar mæla fyrir um að sá sem ber skaðabótaábyrgð á tjóni skuli bæta það að fullu. Í siglingalögum er að finna undantekningu frá þessari meginreglu, en þar segir að útgerðarmenn geti takmarkað skaðabótaábyrgð sína. Slíkar takmörkunarreglur eru eitt af sérkennum sjóréttar og eru samræmdar á heimsvísu á grundvelli alþjóðasamnings um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum sem Ísland hefur verið aðili að síðan 2008.

Fyrir fimm árum voru samþykktar breytingar á alþjóðasamningum vegna verðlagsbreytinga og fenginnar reynslu. Öðluðust þær gildi um mitt árið 2015. Ísland er því skuldbundið til að uppfæra takmörkunarfjárhæðir siglingalaga í samræmi við þessar breytingar.

Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um loftferðir. Tillögurnar leiða af þremur Evrópugerðum.

Í fyrsta lagi er um að ræða reglugerð um tilkynningu atvika í almenningsflugi. Með tilkynningu atvika er átt við tilkynningu frávika frá öryggiskröfum sem reynslan hefur sýnt að eru oft undanfarar flugslysa og alvarlegra flugatvika. Upplýsingar um slík frávik stuðla að bættum forvörnum innan fyrirtækja í flugrekstri sem og flugmálayfirvalda. Reglur um tilkynningu atvika hafa verið samræmdar á EES-svæðinu síðan 2005, fyrst með tilskipun og nú með reglugerð. Áður en hægt er að innleiða reglugerðina þarf að gera breytingar á loftferðalögum, en nú er með strangari hætti mælt fyrir um skyldu fyrirtækja og yfirvalda að koma á laggirnar tilkynningarkerfum sem auðveldar söfnun upplýsinga um tilkynningaskyld atvik.

Einnig er nú gert ráð fyrir að slík kerfi nái til valfrjálsra tilkynninga, en það eru tilkynningar frá einstaklingum sem ekki hafa sérstaka skyldu til að tilkynna, stöðu sinnar vegna, en um gæti verið að ræða starfsmenn á öðrum sviðum en þeim sem frávik á sér stað eða farþegar.

Þá eru einnig gerðar ákveðnar kröfur til gagnagrunna og vinnslu upplýsinga og að þeir sem tilkynna um atvik og aðra annmarka sæti ekki viðurlögum af hálfu fyrirtækja.

Í öðru lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði loftferðalaga sem snýr að aldurshámarki flugumferðarstjóra. Breytingarnar stafa af reglugerð um leyfisveitingar og útgáfu skírteina til flugumferðarstjóra, en með henni er mælt fyrir um hámarkssamræmingu reglna á EES-svæðinu. Ekki er að finna ákvæði um aldur flugumferðarstjóra í reglugerðinni. Er því nauðsynlegt að það verði fellt brott.

Í þriðja lagi er lagt til að mælt verði fyrir um stöðu flugverndarstjóra í lögum um loftferðir. Hér á landi gildir reglugerð um flugvernd sem felur í sér innleiðingu á ákvæðum Evrópugerða um flugvernd. Í reglugerðinni hefur nú um nokkurt skeið verið mælt fyrir um skyldu aðila, sem hafa samþykki vegna flugverndar, til að tilnefna ábyrgðaraðila vegna flugverndarmála. Sá aðili hefur kallast flugverndarfulltrúi í reglugerðinni og hefur verið mælt fyrir um að hann skuli starfa sem trúnaðarmaður Samgöngustofu.

Við breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni síðastliðið haust var starfsheiti þessa aðila breytt í flugverndarstjóra. Þá bentu hagsmunaaðilar á að eðlilegt væri að mæla fyrir um flugverndarstjóra í lögum og jafnframt um stöðu hans sem trúnaðarmanns gagnvart Samgöngustofu. Flugverndarstjóri er sá aðili sem ber ábyrgð á að leiðbeina, innleiða og framfylgja flugverndaráætlun aðila sem hefur samþykki vegna flugverndar. Þá er einnig lagt til að kveða á um heimild til handa ráðherra til að mæla fyrir um hæfniskröfur til flugverndarstjóra í reglugerð.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningsskipa. Þær breytingartillögur sem þar er að finna eiga rætur sínar að rekja til aðildar Íslands að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, svokölluð STCW-samþykkt. Samþykktin er talin ein af mikilvægustu alþjóðasamþykktum á sviði siglinga, en með henni er mælt fyrir um lágmarkskröfur um menntun og þjálfun áhafna kaupskipa. Árið 2010 voru gerðar umtalsverðar breytingar á samþykktinni, en ein breytinganna felur í sér að læknar sem gefa út heilbrigðisvottorð sjómanna skuli vera viðurkenndir af stjórnvöldum. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um slíka viðurkenningu lækna og því nauðsynlegt að lögum sé breytt.

Þá eru einnig lagðar til breytingar af lagatæknilegum toga. Lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um farþegabáta í lögunum, en það eru þeir bátar sem geta flutt að hámarki 12 farþega. STCW-samþykktin fjallar ekki um slíka báta og er því þörf á að mæla sérstaklega fyrir um þá til að auka skýrleika og koma í veg fyrir misræmi íslenskra laga og samþykktarinnar.

Í IV. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um vaktstöð siglinga. Mikill meiri hluti farmflutninga fer fram á sjó. Er því mikilvægt að sjóflutningar séu sem greiðastir, en skriffinnska og hátt flækjustig hindrar sjóflutninga í að þróast til fulls. Á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar hefur verið samþykktur sérstakur samningur sem hefur að markmiði að auðvelda flutninga á sjó. Í þeim samningi er að finna fyrirmyndir að stöðluðum einföldum eyðublöðum sem skip skulu nota til að uppfylla tiltekin formsatriði við skýrslugjöf þegar þau koma í höfn eða láta úr höfn.

Til að koma í veg fyrir mismunandi útfærslur innan Evrópska efnahagssvæðisins var ákveðið að hin stöðluðu eyðublöð Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar skyldu notuð og hefur það verið gert á grundvelli tilskipunar frá 2002. Nú hefur samningi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar verið breytt og hefur verið gefin út ný tilskipun innan EES sem endurspeglar þær breytingar. Nú er strangar kveðið á um skyldur aðildarríkja en áður til að tryggja einföldun og samræmingu stjórnsýslumeðferðar vegna sjóflutninga innan EES. Tilskipun þessi tók gildi 2010 og bar íslenskum stjórnvöldum að innleiða hana árið 2014. Mjög brýnt er því að lögum verði breytt svo íslenskur réttur verði í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum.

Að lokum er með V. kafla frumvarpsins lagðar til breytingar á lögum um rannsókn samgönguslysa. Rannsókn sjóslysa er samræmd innan EES á grundvelli tilskipunar um rannsókn sjóslysa. Sú tilskipun hefur verið innleidd hér á landi og starfar rannsóknarnefnd samgönguslysa í samræmi við hana. Árið 2016 komu fulltrúar Siglingaöryggisstofnunar Evrópu í vettvangsheimsókn til Íslands til að taka út starfsemi nefndarinnar. Í ljós kom að nokkur ákvæði tilskipunarinnar voru ekki innleidd hér á landi og er nú lagt til að úr því verði bætt.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umræðu.