146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgangna.

234. mál
[15:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verið að taka hérna til skipa sem eru fyrir 12 farþega og færri af því að reglur Alþjóðasiglingamálastofnunar taka til skipa sem eru stærri, þannig að verið er að vinna eftir því.

Varðandi flugumferðarstjórana þá er það þannig í dag að það er aldurshámark sem gildir gagnvart flugumferðarstjórum. Þeir þurfa að hætta þegar þeir verða sextugir. Það er reyndar í gildi framlengingarákvæði sem ráðherra getur beitt til 63 ára aldurs. Við erum að fella það brott sem krefst þess að við setjum upp skýrar reglur um það hvernig við metum hæfi einstaklinga til að geta starfað lengur. Þetta er í sjálfu sér almennt í samræmi við það sem er þróunin í okkar samfélagi. Sem betur fer er heilsufar manna gott. Þarna geta verið mikilvægir starfskraftar sem getur verið mjög ákjósanlegt að hafa lengur í starfi og þurfa ekki að hætta vegna einhvers ákvæðis um hámarksaldur heldur sé meira tillit tekið til þess hversu vel menn eru í stakk búnir til að sinna þeim ábyrgðarmiklu störfum sem þessu fylgir.