146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum svo sem farið út í málskilning okkar, míns og hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, en þegar ég segi hefja undirbúning að flutningi Gæslunnar myndi ég halda að partur af þeirri vinnu yrði að skoða þá hluti sem ég benti á og fór mjög vandlega yfir í ræðu minni, sérstaklega þá þætti sem ég hef bent á og fært rök fyrir að voru beinlínis rangir í skýrslunni, eða forsendur voru rangar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því eftir ræðuna sem ég flutti áðan hvort við getum ekki verið sammála um að rökin fyrir þessu máli séu ansi góð.

Á sínum tíma, þegar ég flutti þetta mál fyrst, ég held að það séu komin þrjú ár síðan, fór þáverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson í ræðu og andsvar við mig. Hann gat á þeim tíma, það er hægt að fletta því upp í þingskjölum, ekki hnekkt þeim rökum sem ég nefndi í ræðu minni áðan. Ég er með nákvæmlega sömu rök og þá, það hefur ekkert breyst. Málið er mjög sterkt. Það þarf ekki að eyða miklum tíma í að fara yfir það að nýju.

Ég hef aldrei talað fyrir því að flytja eigi Gæsluna suður eftir með manni og mús á morgun. Ég geri mér vel grein fyrir því að huga þarf að mjög mörgum þáttum áður en flutningur hefst. Það að hefja undirbúning að flutningi getur vel falið í sér að gera faglega greiningu á málinu áður en flutningur hefst og þetta verið partur af langtímaáætlun Gæslunnar. Þannig er það ekki nú.