146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

húsnæði Listaháskóla Íslands.

143. mál
[16:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ákvað með stuttum fyrirvara að kveðja mér hljóðs til þess að koma því á framfæri að ég styð þessa tillögu heils hugar. Ég sé að það er enginn þingmaður Framsóknarflokksins meðflutningsmaður en það þýðir ekki að Framsóknarflokkurinn styðji ekki þessa góðu tillögu. Eins og hv. þingmaður fór mjög vel yfir í ræðu sinni hefur það úrslitaþýðingu til framtíðar fyrir atvinnulífið og þátttöku okkar á alþjóðlegum mörkuðum og samkeppni þar að við séum með gott nám í skapandi greinum hér á landi.

Ég gat ekki betur heyrt í sérstökum umræðum í gær, þar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var málshefjandi, en að allir þingmenn sem tóku til máls hafi verið sammála um mikilvægi þess að byggja undir skapandi greinar og hafa umhverfi til nýsköpunar þannig að sérstaklega minni og meðalstór fyrirtæki eigi raunverulega framtíð hér á landi í harðri alþjóðlegri samkeppni þar sem ýmsir þættir eru okkur frekar óhagstæðir, eins og gengissveiflur og fjarlægð frá mörkuðum o.fl. sem gerir okkur talsvert erfitt fyrir. Þess vegna hefur það svo mikið að segja að ríkið komi til móts við fyrirtækin með sértækum aðgerðum eins og t.d. skattumhverfi, en líka að nám sé í boði og að aðbúnaður og öll umgjörð skapandi náms sé góð, vegna þess að mannauðurinn hér er til staðar. Við höfum mikið af hæfileikaríku fólki sem hefur þennan neista innra með sér og það sér tækifærin og möguleikana og hefur mikla orku. Við höfum góða kennara sem brenna fyrir starfi sínu. En á sama tíma er Listaháskóli Íslands að hruni kominn.

Við ræddum stöðu Listaháskóla Íslands vandlega í hv. fjárlaganefnd fyrir jólin þegar við fórum yfir þau mál. Við vorum líka sammála þar í öllum flokkum að við þyrftum gefa þessum mikilvæga skóla meiri gaum en gert hefur verið. Eins og hv. þm. Einar Brynjólfsson kom inn á er húsnæðið algerlega óboðlegt. Það er óheilsusamlegt. Það er óhagkvæmt í rekstri. Það er ekki aðgengi fyrir fatlaða og alger rekstrarleg óvissa fyrir þá sem eru að reyna að gera sitt besta til að halda skólanum gangandi þar sem engar langtímaáætlanir liggja fyrir.

Ég ætla að segja það hér að ég vil hrósa stjórnendum skólans fyrir að hafa staðið sig afar vel við að vinna innan mjög þröngs ramma hingað til. Það er svo mikil hvatning fólgin í því þegar fólk finnur fyrir skilningi og velvilja, en skólinn hefur verið skilinn eftir. Ég vildi koma því að að þetta mál er mjög gott og ég styð það. Framtíðarmöguleikar okkar liggja í því að byggja undir Listaháskóla Íslands og byggja undir skapandi greinar hér á landi. Þar liggja tekjur landsins til framtíðar. Við lifum á fiski og ýmsu fleiru, það er eitt og það er gott, og núna ferðamönnunum. En fjölbreytt atvinnulíf, styrkar stoðir, er það sem við þurfum. Við megum ekki sitja eftir í þeirri samkeppni sem nú er.

Þjóðir heims eru núna að taka sitt pláss og marka sér stefnu í nýsköpun. Ég fór yfir það í ræðu minni í gær að íslensk fyrirtæki í dag búa við erfitt umhverfi varðandi þróunarstarf. Ef við ákveðum ekki að byggja undir skapandi greinar þá sitjum við eftir og verðum af miklum tekjum og störfum, vegna þess að á dögum alþjóðavæðingar fer fólk mjög auðveldlega á milli landa. Íslendingar sem vilja starfa við skapandi greinar fara náttúrlega bara annað, það er ekkert vandamál. Við verðum því að hafa góðan listaháskóla og við verðum að hafa gott umhverfi fyrir skapandi greinar og stór og smá nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi ef við ætlum að eiga möguleika til framtíðar.