146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fjölmiðlar.

144. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og loks hv. þm. Þórunn Egilsdóttir.

Þess má geta áður en lengra er haldið að þetta frumvarp hefur verið flutt nokkrum sinnum, þ.e. var fyrst flutt á 143. löggjafarþingi, var svo endurflutt á 144. þingi, þá ásamt fimm þingmönnum öðrum úr röðum VG en þá líka úr Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Þegar mælt hafði verið fyrir málinu á sínum tíma gekk það til allsherjar- og menntamálanefndar sem óskaði eftir umsögnum frá 21 aðila, en málið er þannig uppbyggt að það snýst um að að bæta við 30. gr. laganna nýjum málslið sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Myndefni sem fjölmiðlaveitur miðla skal ávallt fylgja texti á íslensku sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnisins eins nákvæmlega og kostur er.“

Átta aðilar sendu umsögn og skiptust þær nokkuð í tvö horn. Þar voru annars vegar fulltrúar heyrnarskertra og talsmenn mannréttinda sem töldu mikla og sjálfsagða réttarbót felast í málinu en af hálfu fjölmiðlanefndar og 365 miðla var bent á kostnað við verkefnið og lögð voru til útfærsluatriði sem gætu orðið til þess að gera framkvæmd þess auðveldari og umsvifaminni. Málið varð sem sé ekki útrætt á 144. löggjafarþingi, var lagt fram á því 145. en var ekki útrætt.

Enn hafa ekki orðið þær breytingar á möguleikum heyrnarlausra og heyrnarskertra til að nýta sér myndefni ljósvakamiðla sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þess vegna er það flutt að nýju með greinargerðinni svo til óbreyttri. Það verður auðvitað að halda því til haga að hér er ekki síður verið að hugsa um fjölmenningarsamfélagið Ísland þar sem um er að ræða fólk sem hefur ekki íslensku að fyrsta máli og getur kosið að nýta sér texta sem stuðning við að skilja talað mál, en líka sem leið til þess að nema íslenska tungu. Það held ég að við þekkjum öll sem höfum verið erlendis um einhvern tíma að texti er oft til stuðnings töluðu efni.

Sú breyting á lögum um fjölmiðla sem frumvarpið felur í sér ef það yrði að lögum snýst um það að fjömiðlaveitum sem senda út sjónvarpsefni verður skylt að texta það án tillits til þess hvort efnið er á íslensku eða erlendu máli. Nú er um skyldubundna textun að ræða ef efnið er á erlendu máli. Breytingin er gerð í því skyni að gera þeim sjónvarpsáhorfendum sem hafa af því gagn, og eru hér nefndir sérstaklega heyrnarskertir, þ.e. táknmálstalandi fólk sem hefur íslensku að öðru máli að jafnaði og nýtur ekki íslenskunnar í gegnum heyrn eða heyrnarskertir sem er gríðarlega stór hópur Íslendinga. Það er kannski ekki nægilega vel utan um það haldið hversu stór hópur aldraðra til að mynda býr við heyrnarskerðingu að einhverju tagi og myndi þiggja textun til þess að geta notið innlends sjónvarpsefnis.

Samkvæmt 29. gr. laganna sem hér um ræðir er fjölmiðlaveitum einungis skylt að texta erlent efni sem þær senda út. Í 30. gr. laganna eru fjölmiðlaveitur hins vegar hvattar til þess að, með leyfi forseta, „leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun“ með táknmáli, textun og hljóðlýsingu en engin skylda er lögð á fjölmiðlaveiturnar hvað þetta varðar. Þetta er í samræmi við ákvæði 7. gr. III. kafla í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 10. mars 2010 þar sem segir að aðildarríki Evrópusambandsins skuli, með leyfi forseta, „hvetja veitendur fjölmiðlaþjónustu, sem heyra undir lögsögu þeirra, til að sjá til þess að þjónusta þeirra verði smátt og smátt gerð aðgengileg sjón- eða heyrnarskertu fólki“. Ekki er kunnugt um slíka hvatningu af hálfu íslenskra stjórnvalda aðra en þá sem er að finna lögum um Ríkisútvarpið, en fjölmiðlanefnd hefur vissulega gert athugasemdir þegar erlent efni hefur verið sent út án íslensks tals eða texta.

Í athugasemdum við 30. gr. frumvarpsins sem lagt var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi er varð að lögum nr. 38/2011, er vakin athygli á því að ákvæðið skyldi ekki veitendur fjölmiðlaþjónustu til að texta ljósvakaefni eða gera það aðgengilegt fyrir þessa hópa með öðrum hætti. Það eru engin viðurlög sem liggja við því að senda út dagskrárefni án þess að gera ráðstafanir til að gera það aðgengilegt fyrir heyrnarskert fólk eða fólk með annars konar þörf á því að nýta sér slíkt aðgengi að íslenskunni.

Í kafla 4.3.1 í athugasemdum við frumvarp til fjölmiðlalaga er leitast við að skýra uppruna og þýðingu frumvarpsins sem á rætur í þessari tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem hér er rædd. Ákvæðið um að aðildarríki ESB og EES skuli hvetja fjölmiðlaþjónustuveitendur í lögsögu þeirra til að gera útsent efni aðgengilegt ber að skilja sem svo, að mati höfundar greinargerðarinnar, að umrædd grein skyldi aðildarríkin til sjálfseftirlits og eigi því aðildarríkin að setja eigin reglur um þau efni sem greinin vísar til að því marki sem heimild er til í réttarkerfi þeirra. Okkur er þannig í raun og veru falið sjálfdæmi í því að fylgja eftir þessum áherslum.

Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðill í almannaþágu og í almannaeigu, hefur sett sér málstefnu eins og áskilið er íslenskri málstefnu, Íslenska til alls, sem svo er kölluð, sem samþykkt var á Alþingi með þingsályktun 2009. Grein 2.6 í þeirri málstefnu fjallar um táknmál og textun og segir þar, með leyfi forseta:

„Tekið skal mið af þörfum heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli með því að bjóða upp á táknmálsþýðingar og textun innlends sjónvarpsefnis „eftir því sem kostur er“.

Það er náttúrlega kannski lykilsetningin í þessu, „eftir því sem kostur er“. Er þetta í samræmi við lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, þar sem það er áskilið að heyrnarskertum sé veittur aðgangur að, með leyfi forseta, „fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum sem henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma“, sem er auðvitað ákveðin takmörkun í vissum skilningi.

Ríkisútvarpið textar nú alla sjónvarpsþætti á íslensku sem eru unnir fyrir fram og einnig fréttatíma sjónvarps. Sjónvarpsþættir sem sendir eru út beint, svo sem Kastljós og vikulegir umræðuþættir um þjóðmál, eru ekki textaðir. Árið 2012 jókst textun á síðu 888 í textavarpi RÚV úr 303 klukkustundum í 408, eða um 35%, þannig að það er ljóst að það er verið að auka þessa þjónustu umtalsvert. Á rekstrarárinu 2013–2014 var sent út textað innlent efni í textavarpi í 790 klukkustundir og samtímatextun frétta jókst um 13,6%. Þetta er þjónusta sem okkur er kannski ekki ljós að liggi fyrir okkur flestum sem nýtum okkur bara heyrn til þess að nema íslenska tungu, en þetta er sem sagt aðgengilegt í gegnum textavarp á síðu 888 í sífellt ríkari mæli. Þannig leitast RÚV í raun og veru við að fylgja eftir þessu lögbundna hlutverki sínu gagnvart heyrnarlausum og heyrnarskertum notendum og einnig auðvitað í samræmi við lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál sem segir að íslenskt táknmál eigi að vera með jafnstöðu á við íslensku sem móðurmál og þar með að það þurfi að leita færis til þess að gera íslenskuna aðgengilega þeim sem ekki njóta hennar í gegnum heyrn.

Aðrir ljósvakamiðlar texta aðeins erlent efni. Því hafa heyrnarskertir mjög takmarkað gagn af útsendingu þeirra á íslensku. Aðrir ljósvakamiðlar en RÚV hafa ekki sett sér málstefnu og texta ekki útsendingar sjónvarpsefnis á íslensku. Það er því ljóst að þessi brýning um textun í fjölmiðlalögum hefur einungis borið takmarkaðan árangur, enda kemur þar fram eins og áður er vikið að að þar er ætlast til þess að fyrirtækin veiti þessa þjónustu eftir því sem kostur er.

Textun sjónvarpsefnis á móðurmáli þeirra sem útsendingin er fyrst og fremst ætluð gegnir því meginhlutverki að gera þessum hópum, heyrnarlausum og heyrnarskertum einstaklingum á viðkomandi svæði, kleift að njóta þess efnis eins og kostur er. Einnig kemur textun sjónvarpsefnis á íslensku að góðum notum, eins og hér hefur áður verið vikið að, fyrir erlent fólk sem ekki hefur full tök á íslensku talmáli en kýs að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum. Fjölmiðlar gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og því er áríðandi að sem flestir geti notið þess efnis sem þeir flytja. Má með góðum rökum halda því fram að fjölmiðlar séu mikilvægur þáttur í því að tryggja það að íslenskt samfélag taki á móti innflytjendum með viðunandi hætti og þá með því að gera fjölmiðlana aðgengilegri.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um það hversu margir Íslendingar eru heyrnarskertir en sé miðað við erlendar rannsóknir má reikna með að a.m.k. 10–15% landsmanna búi við heyrnarskerðingu í einhverjum mæli. Við gætum, virðulegur forseti, verið að tala um milli 30 og 40 þúsund manns a.m.k. Heyrnarskerðingu getur fólk hlotið hvenær sem er á æviskeiðinu, en heyrnardeyfa er meðal þess sem gjarnan fylgir háum aldri og er langtum algengari hjá fólki á efri árum en æskufólki. Sífellt fleiri Íslendingar ná háum aldri og hlutfall aldraðra eykst frá ári til árs. Þann 1. desember 2014 voru tæp 9% landsmanna 70 ára eða eldri, en mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að árið 2020 verði þetta hlutfall 10,2% og 13,7% árið 2030. Enda þótt ýmis tæknileg og læknisfræðileg úrræði gagnist fólki vel til að vinna bug á heyrnardeyfu á efri árum er við því að búast að fólki sem þarf á texta að halda til að geta notið sjónvarpsútsendinga á íslensku muni fara fjölgandi á næstu árum og áratugum og er full ástæða til að bregðast við því.

Virðulegur forseti. Ég vil líka gera grein fyrir því, af því einhverjum kann að finnast þetta mál vera úr takti við annað sem hefur verið rætt hér varðandi stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi, að hér er auðvitað um að ræða mál sem gengur algjörlega arm í arm við þau sjónarmið. Eftir því sem tungutækninni fleygir fram aukast möguleikar á því að jafnvel sé hægt á vélrænan hátt að texta sjónvarpsefni samtímis. Þar með erum við farin að tala um enn þá ríkari möguleika á textun án þess að leggja þurfi í verulegan kostnað. Framgangur máls af þessu tagi hangir líka á því að við sinnum tungutækni með myndarlegum hætti, styðjum stöðu íslenskrar tungu í stafrænum heimi og þar með aukum við líka möguleika á því að sem flestir geti notið sjónvarpsefnis sem er á íslenskri tungu.

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að þetta mál gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og vona auðvitað að það fái þar góðan framgang. Mér skilst nú af þeim þingmönnum nokkrum sem ég hef nefnt þetta mál við hér á göngum eftir að það var framlagt að það sé meiri stuðningur við það en endurspeglast í fjölda flutningsmanna eða fulltrúa flokka. Þetta er gott mál sem á ekki að vera öðruvísi en þverpólitískt, er til bóta fyrir samfélagið, gerir það opnara og eykur möguleika allra til þátttöku. Það er jú sú sýn sem ég vona að við flest deilum, þ.e. að samfélagið sé aðgengilegt fyrir sem flesta án tillits til efnahags, búsetu og annarra þátta sem gerir okkur sem betur fer að fjölbreyttu samfélagi. Þetta mál er lagt fram í því skyni. Ég vona auðvitað, virðulegi forseti, að því gangi vel hér í þinginu.