146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Til hamingju með daginn. Í dag og í gær hefur afnámi haftanna verið fagnað um land allt og víða um heim. Ísland hefur nú verið opnað fyrir óheft kaup einstaklinga, fyrirtækja og lífeyrissjóða á gjaldeyri. Ísland er nú aftur komið á alþjóðlega fjármálamarkaði. Fjölmiðlar innan lands og utan taka eftir vönduðum og fumlausum vinnubrögðum við afnám fjármagnshafta og sérfræðingar ljúka upp einum rómi um að þetta séu gleðifréttir.

Það var gaman í gær að fá að tilkynna það að Ísland sé búið að hrista af sér síðustu hlekki hrunsins og það verður gleðidagur á morgun þegar breytingarnar hafa öðlast gildi eftir formlega birtingu í Stjórnartíðindum. Fyrirtæki, einstaklingar og lífeyrissjóðir geta nú flutt fjármagn að og frá landinu án takmarkana. Eftir standa takmarkanir á þá tegund spákaupmennsku sem skapaði snjóhengjuna til að byrja með, þ.e. stórfelld vaxtamunarviðskipti. Strax við setningu haftanna var stefnt að því að þau yrðu tímabundin. Fyrst áttu þau að vera í tvö ár en ekki tókst að afnema þau á þeim tíma og ítrekað hefur afnám þeirra reynst erfiðara en vonir stóðu til.

Á þessum tímamótum er rétt að spyrja hvort afnám haftanna geti ekki valdið óstöðugleika. Því er til að svara að 2017 er ekki nýtt 2007. Umsvif bankakerfisins eru miklu minni en fyrir áratug, einstaklingar og fyrirtæki hafa greitt niður skuldir en á þeim tíma söfnuðu þau skuldum. Hagfræðingar eru sammála um að efnahagur þjóðarinnar standi nú mun styrkari fótum en þá. Ferðaþjónusta, útvegur og fjölbreytt nýsköpun hafa aukið útflutning nú í stað hins hola bankakerfis sem gein yfir öllu árið 2007. Fjármálakerfið býr nú við allt annars konar regluverk þar sem áhætta er minni og gegnsæi meira. Og við höldum áfram á þeirri braut, hér á Alþingi er lífleg umræða um framtíð bankakerfisins og ég hef nýlega skipað hóp til þess að fjalla um ýmis álitamál sem skoða þarf þar.

Þegar ég kom inn í fjármálaráðuneytið skipaði ég að nýju í stýrinefnd um losun hafta sem starfar undir stjórn fjármálaráðherra. Fyrsti fundur hinnar nýju nefndar var 31. janúar en alls hafa verið haldnir fimm fundir í nefndinni. Nefndin lagði áherslu á að búa svo um hnúta að hægt væri að ljúka afnáminu hratt. Ég hef í ræðu og riti lagt mikla áherslu á að höftin yrðu afnumin svo fljótt sem verða mætti, en þó ávallt lagt mikla áherslu á að ekki mætti tefla stöðugleika í efnahagskerfinu í hættu.

Fyrir rúmlega tveimur vikum óskuðu nokkrir sjóðir, sem eiga aflandskrónur, eftir fundi með fulltrúum Seðlabanka og gáfu í skyn að á fundinum myndu þeir koma með tilboð um sölu á hlut sínum til bankans. Ég taldi rétt að upplýsa formenn allra flokka strax um þennan fund. Ég kom ásamt fleiri fulltrúum í stýrinefnd um afnám hafta á fund formanna minnihlutaflokkanna föstudaginn 24. febrúar, þremur dögum áður en fundurinn var haldinn. Á fundinn sem haldinn var í New York mættu einnig fulltrúar forsætisráðherra og fjármálaráðherra en þegar til kom reyndust hugmyndir sjóðanna óraunhæfar og engir samningar voru gerðir.

Stýrinefndin lagði mikla áherslu á það í allri vinnu sinni að standa faglega að öllum skrefum. Fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og Seðlabankinn unnu þétt saman, niðurstaðan er afar ánægjuleg og ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á þann plóg. Vinnu af þessu tagi þarf að vinna bæði hratt og í trúnaði því að niðurstöður aðgerðanna hafa áhrif á fjármálamarkaði. Hér gilda innherjareglur og mikilvægt að allir markaðsaðilar sitji við sama borð. Nú hefur náðst samkomulag við eigendur stórs hluta aflandskróna. Á næstu tveimur vikum skýrist hve margir þekkjast boð Seðlabanka um að losa sig við eignir sínar á sama gengi.

Virðulegi forseti. Aðgerðirnar nú eru hluti af fjölbreyttum aðgerðum sem ríkisstjórnin vinnur að til þess að auka gengisstöðugleika og bæta almenn rekstrarskilyrði. Ríkisstjórnin tilkynnti í gær um verkefnisstjórn sem fær það hlutverk að leiða vinnu við endurmat á ramma peningastefnunnar. Verkefnisstjórninni er ætlað að vinna með þingflokkum, erlendum og innlendum sérfræðingum, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum. Í stjórnarsáttmála er því beinlínis lýst yfir að stefna skuli að auknum gengisstöðugleika.

Á fyrsta degi þingsins eftir jólahlé lagði ég fram á Alþingi fjármálastefnu sem kveður á um aukið aðhald í ríkisfjármálum. Samhljómur er um að nauðsynlegt sé að sýna aðhald í ríkisrekstri næstu misseri, m.a. til að skapa svigrúm til vaxtalækkunar.

Um mitt ár í fyrra fór fram útboð á aflandskrónum þar sem viðskipti urðu á genginu 190 kr. á evru. Þátttaka í útboðinu olli vonbrigðum en í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að mestu leyti ef gengið hefði verið 165–170 kr. á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi. Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki, kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur. Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að loka dæminu þá en menn misstu af því tækifæri. Það er rétt að minna á að mikill kostnaður fylgir því að halda úti stórum gjaldeyrisforða og Seðlabankinn hefur haft að undanförnu kostnað bæði af vöxtum og gengistapi. Núverandi stjórnvöld spila úr þeim spilum sem eru á hendi núna og hafa að sjálfsögðu hagsmuni almennings í huga og að leiðarljósi þegar samkomulag er nú gert við aflandskrónueigendur. Aðalatriðið er að almenningur getur nú keypt evrur á miklu lægra verði en eigendur snjóhengjunnar. Efnahagslífið kemst undan höftunum strax.

Nú geta fyrirtæki sem við erum öll stolt af, eins og Marel og Össur, stundað sín viðskipti eðlilega. Í höftum hefðu þau ævintýrafyrirtæki aldrei getað orðið til. Við getum ekki sagt fyrir um það hversu mörg Marel-fyrirtæki hefðu getað orðið til ef höftin hefðu ekki verið eða ef þau hefðu verið afnumin fyrr. En þegar gengið styrkist græða allir sem eiga krónur. Gunna og Jón eru ríkari í evrum talið í dag en þau voru fyrir ári. Aflandskrónueigendurnir urðu líka ríkari vegna þess að samningum var ekki lokið fyrr.

Allir stjórnmálamenn hafa lýst yfir mikilvægi þess að Ísland yrði ekki í höftum um langan aldur. Við þekkjum fyrra haftatímabil íslensku krónunnar, það stóð í meira en 60 ár. Atvinnulífið hefur verið heft í meira en átta ár í þetta sinn. Þó að víðtæk samstaða hafi verið um höftin á sínum tíma getur enginn sagt til um þann óbeina skaða sem þau hafa valdið atvinnulífinu. Með afnámi þeirra er stigið stórt skref í átt að því að hægt verði að lækka vexti og að gengið verði stöðugra. Hvort tveggja bætir samkeppnisstöðu íslenskra heimila og fyrirtækja og það er fagnaðarefni. Því segi ég: Til hamingju, Ísland.