146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrslu hans. Ég þekki vel þá tilfinningu þegar ný ríkisstjórn kemur að henni finnist gjarnan eins og árið sé núll og upphaf sögunnar hér og nú. En auðvitað hafa verið margir áfangar á þessari leið allt frá því að fyrsta áætlunin um afnám hafta var lögð fram árið 2011 og margt gott verið gert á þeirri leið sem hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag. En um leið deila menn vissulega um ýmsar af þeim aðgerðum sem voru lagðar fram.

Mig langar í fyrsta lagi að ræða aðeins um það samkomulag sem gert hefur verið við eigendur aflandskrónueigna og hins vegar að ræða aðeins um framhald mála. Það er svo að þegar kynntar voru áætlanir sem fyrst og fremst gengu út á stöðugleikaskatt á sínum tíma, árið 2015, og stöðugleikaframlög voru kynnt sem varaleið, var rætt um að útboð á aflandskrónueignum skyldi vera þá um haustið 2015. En útboðið var ekki fyrr en sumarið 2016 þegar þegar höfðu verið gerðir samningar um stöðugleikaframlög frá fjármálafyrirtækjunum föllnu. Þá þegar var farið að eiga samtöl við ýmsa kröfuhafa, eins og var talsvert tekist á um í þessum sal. En þá var gert ráð fyrir útboði á aflandskrónum haustið 2015. Úr því varð ekki. Um það var spurt margoft í umræðum, af hverju ákveðið hefði verið að bíða með það.

Þegar við ræddum hér eina helgi í maí 2016, 20.–22. maí, um þann lagaramma sem síðan var settur um meðferð aflandskrónueigna spurði ég eftir þessu því að ég hafði vissar áhyggjur af því á þeim tíma, og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvort að það að þrotabúin væru í raun og veru sloppin úr höftum hefði létt þrýstingi af aflandskrónueigendum. Í ljósi þess að þarna voru undir 319 milljarðar en eftir stóðu svo 195 milljarðar má segja að þetta útboð hafi ekki tekist. Hæstv. núverandi fjármálaráðherra kemur hér og segir að í raun og veru hefði verið betra að semja við aflandskrónueigendur þá á öðru gengi. Hann virðist líka telja að þarna hafi verið gerð mistök í framkvæmdinni á losun hafta. En þá, í maímánuði 2016, voru gefnir 48 tímar til að fara yfir málið því að það er auðvitað staðan þegar maður er staddur í stjórnarandstöðu að manni er tilkynnt um hlutina en ekki beinlínis spurður álits. Á sínum tíma kom fram í nefndaráliti mínu um þetta mál að það hefði ekki einu sinni gefist tími til að meta hvaða áhrif það hefði að færa útboðið með þessum hætti.

En í öllu falli liggur fyrir og um það er ekki deilt að nú er búið að semja við þessa eigendur aflandskrónueigna upp á 90 milljarða á talsvert hagstæðari kjörum en hefði komið til í útboðinu sumarið 2016. Þeir geta því gengið frá borði nokkuð sáttir við sína stöðu og vissulega skýrist það af því að gengi krónunnar hefur styrkst, en við hljótum líka að velta fyrir okkur hvort þessi tímasetning hafi verið eðlileg og hvort eitthvað hafi þrýst á núna að ganga til samninga með þessum hætti.

Það má kannski segja að það þrýsti á að losa um höftin að hér er efnahagsástand með allt öðrum hætti en verið hefur. Þau rök sem við höfum haft fyrir höftunum, að útflæði og innflæði fjármagns raski ekki stöðugleika, fara að verða hverfandi þegar um er að ræða verulega öflugan gjaldeyrisvaraforða, að stóru leyti óskuldsettan, sem nýtist okkur að sjálfsögðu til að tryggja stöðugleikann ef fjármagn fer úr landi.

Að sjálfsögðu hefur sú staða sem skapast hefur sem betur fer orðið til þess að rökin fyrir höftunum hafa orðið hverfandi. En eigi að síður vakna ýmsar spurningar þegar ákveðið er með þessum hætti að ganga til samninga við þessa tilteknu aðila. Nú hefur verið boðað að aðrir aðilar geti þá farið úr landi á sömu kjörum og þá sjáum við a.m.k. að þeir aðilar sem það munu gera og munu nýta sér munu hagnast um tugi milljarða samanlagt með því að hafa ekki tekið þátt í útboðinu á sínum tíma heldur fara úr landi nú.

Við sáum í morgun að gengi krónunnar veiktist. Við spurðum eftir því í gær, bæði á fundi formanna með ráðherranefnd um efnahagsmál og svo á fundi efnahags- og viðskiptanefndar, og ég vil þakka fyrir að orðið var við því strax að halda fund í efnahags- og viðskiptanefnd í gær til að fara yfir málið, um þær sviðsmyndir sem stjórnvöld hefðu teiknað upp hvað varðar gengisþróun því að auðvitað er það svo að þær aðgerðir sem ráðist var í að mig minnir núna í september 2016 voru kannski þær aðgerðir í haftalosun sem vörðuðu almenning mestu. En þær aðgerðir sem nú er ráðist í skipta hins vegar meira máli fyrir fyrirtækin í landinu, lítil og meðalstór fyrirtæki sem munu losna við þá íþyngjandi þætti sem fylgja skilaskyldunni. Almenningur verður kannski ekki eins var við það, en mikilvægt er að við sem hér störfum hugum að því að okkar hlutverk er alltaf að verja hag almennings. Ég hefði viljað sjá dregnar upp fyrir okkur mun skýrari sviðsmyndir um hvað ólík gengisþróun getur haft í för með sér, hver áhrifin verða í framhaldinu á vaxtastig í landinu, á kjör almennings, á verðlagsþróun, en í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur verið í því hlutverki að vera áhorfandi fremur en þátttakandi í ákvarðanatöku olli það mér líka vonbrigðum að þessar sviðsmyndir voru ekki lagðar fram en borið við að um þetta væri alger óvissa.

Það er vissulega svo, ég held að það deili ekki nokkur maður um það, að ytri aðstæður eru hagfelldar núna til þess að losa um höft og afnema höft. Auðvitað fögnum við þeim áfanga. Eins og ég sagði hér í upphafi: Að þessu hefur verið stefnt allt frá 2011. Ég vil líka segja að allan þann tíma hefur stjórnarandstaðan, hver sem hana hefur skipað, greitt fyrir því að mál tengd þessu mikilvæga hagsmunamáli atvinnulífs og almennings á Íslandi hafi náð fram að ganga. Ég vil að sjálfsögðu segja að við fögnum því að við séum að komast á þann stað. En eðlilega setjum við hins vegar spurningarmerki við þá samninga sem hafa verið gerðir, þær tímasetningar sem uppi eru og þá staðreynd að einhverjir aðilar þarna úti, einhverjir vogunarsjóðir þarna úti, ganga frá borði með miklu betri samninga en þeir gátu vænst miðað við þá skilmála sem uppi voru í útboðinu í sumar.

Að lokum langar mig, því að tíminn líður hér hratt, að nefna að kynnt var líka í gær ný nefnd um endurskoðun peningastefnu. Þetta var okkur formönnum kynnt á fundi með ráðherranefnd um efnahagsmál. Ég taldi reyndar að verið væri að leita eftir áliti okkar á þeirri nefnd, og lét þá skoðun mína í ljósi að mér hefði þótt eðlilegra að það hefði verið haft samráð allra flokka um hvernig ætti að standa að skipun slíkrar nefndar. Það er vissulega rétt sem bent hefur verið á að peningastefna er að mörgu leyti viðfangsefni sérfræðinga en ekki endilega þingmanna úr öllum flokkum. Er nokkuð sem hefði mælt gegn því að ríkisstjórn með minnsta mögulega meiri hluta á Alþingi, með minni hluta atkvæða á bakvið sig, þar sem einhverjir fulltrúar hafa talað mjög fyrir bættum vinnubrögðum á Alþingi og opnari stjórnsýslu og minna fúski, hefði nú kallað til fundar og sest niður og haft samráð um hvaða sérfræðinga ætti að skipa í slíka nefnd þannig að unnt væri að tryggja þverpólitíska nálgun og ábyrgð á störfum slíkrar nefndar og þar með að allir flokkar á Alþingi öðluðust ákveðið eignarhald? Nei, í þeirri tillögu, sem ég taldi að verið væri að leita álits okkar á en var svo kynnt sem staðreynd á blaðamannafundi síðar um daginn, er ætlast til þess að þingflokkarnir skipi samráðsnefnd sem væntanlega fær þá að hitta þá aðila sem sérfræðingarnir velja og taka fyrir þau efni sem sérfræðingarnir velja. Ég segi: Þarna hafði ríkisstjórnin gott tækifæri til að sýna að hún vildi önnur og betri vinnubrögð, meira samráð, vildi horfa til þess og viðurkenndi að það er líka ákveðin pólitík sem felst í því hvernig sérfræðingar eru valdir til starfa í slíka nefnd, að það er pólitík sem felst í því að endurskoða peningastefnuna og það skiptir máli að þar sé tiltekinna spurninga spurt. Þetta er gríðarstórt hagsmunamál fyrir allan almenning því það snýst um það hvernig við getum tryggt stöðugleika í efnahagsmálum, gengisstöðugleika, hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina þegar kemur að stefnu í gjaldmiðlamálum. Þarna hafði ríkisstjórnin gott tækifæri til að opna sig, sýna að hún vilji aukið samstarf á Alþingi og um leið hafa í heiðri þau sjónarmið að mikilvægt sé að fá færa sérfræðinga til verksins. Ég hefði talið að það tækifæri hefði ríkisstjórnin átt að nýta. En hún kaus að tilkynna um ákvörðun sína á blaðamannafundi klukkutíma síðar. Mér finnst þetta tækifæri sem fór forgörðum hjá núverandi ríkisstjórn.