146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Samfylkingin hefur stutt við afnám hafta jafnt í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Við erum ánægð að sjá að sú áætlun sem við lögðum upp með í mars 2011 hefur gengið eftir í stórum dráttum og sú samningsstaða sem sköpuð var með lagasetningu í mars 2012 gagnvart erlendum kröfuhöfum hefur skilað árangri. Skilyrðin fyrir afnám hafta nú eru vissulega um margt jákvæð, hagstæð. Vonir stóðu þá til þess að hægt væri að aflétta höftum miklu fyrr og erfitt er að meta kostnað af töfunum. Nú eru eigendur aflandskróna að fá hátt verð fyrir krónueignir. Því er spurt: Hefði átt að bíða enn um sinn með að greiða fyrir útgöngu þeirra og sjá fyrst hver áhrif af haftalosun annarra eru á sveiflugjarnan gjaldmiðilinn? Enn fremur má spyrja hvort þessi fyrirgreiðsla sé leið í átt að myntráði Viðreisnar án umræðu hér á Alþingi?

Frú forseti. Gleymum ekki ástæðunum fyrir höftunum. Óábyrg hegðun sem leiddi til falls efnahagskerfisins með fordæmalausu hruni krónunnar varð íslensku launafólki dýrkeypt. Nú þegar krónan hefur náð nokkrum styrk, launafólk nýtur þess, m.a. vegna innfluttrar verðhjöðnunar og með auknum kaupmætti, heyrast þær raddir að umfram allt þurfi að veikja hana til að bjarga grunnatvinnuvegunum. Það má þó aldrei vera þannig að eignafólk njóti góðs af afskiptum stjórnmálamanna en launafólk beri kostnaðinn. Við þurfum stöðugleika og fyrirsjáanleika. Það kemur almenningi og þekkingargreinum langbest.

Þessi rússibanareið krónunnar endar ævinlega á því að almenningur borgar brúsann. Allt frá upptökum krónunnar árið 1918 hefur hún verið sjálfstæð uppspretta vandamála, ekki flotið frjáls án þess að bankakreppa hafi fylgt í kjölfarið. Henni hafa líka fylgt höft og fyrirgreiðslupólitík. Nú þurfum við að beita langtímahugsun, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér rétt áðan. Ég fagna því vissulega að stjórnvöld hafi við þessi tímamót ákveðið að skipa nefnd um endurnýjaða peningastefnu. Þar á samkvæmt plönum að leita víðtæks samráðs. Það er mikilvægt að náið samstarf sé við þingið og allar leiðir séu skoðaðar.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að eitt mikilvægasta verkefnið sé að koma í veg fyrir óhóflega sveiflu krónunnar. En ætla stjórnmálamenn líka að ákveða hvað sé rétt gengi? Það er skammtími, frú forseti, að einbeita sér stöðugt að því að slá á sjúkdómseinkenni fremur en að koma í veg fyrir sjúkdóm eða lækna hann. Ég vona svo sannarlega að þessi nýja nefnd skoði með opnum hug bæði galla og ávinning þess fyrir lítið land að nota sjálfstæða mynt.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra hafi víðtækt samráð í þessari vinnu og þar verði einnig horft til þess hvernig bankakerfi við viljum hafa hér á landi. Það þarf að draga lærdóm af biturri sögu okkar í þeim efnum.

Frú forseti. Loki Laufeyjarson átti nokkur ólánsafkvæmi, m.a. Hel, Miðgarðsorm og Fenrisúlf. Þegar ásum stóð að lokum ógn af Fenrisúlfi freistuðu þeir þess að binda hann, fyrst með fjötrinum Læðingi en síðan með Dróma. Skepnan sleit þá báða af sér og til urðu orðatiltækin „að leysa úr læðingi“ og „að drepa úr dróma“. Þegar allir bjargir voru bannaðar leituðu þeir loks til dverga sem útbjuggu hinn örþunna en níðsterka Gleipni. Hann heldur Fenrisúlfi föstum allt til ragnaraka. Líklega er íslenska krónan Loki Laufeyjarson í Goðheimum gjaldmiðla, kemur okkur reglulega í vanda en nýtist svo við björgunarstörfin líka. Krónan á kannski færri afkvæmi en Loki, en þeirra þekktust eru verðtrygging og óstöðugleiki.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi reynt að koma böndum á óstöðugleikann, spunnið sína útgáfu af Læðingi og Dróma. Þeir fjötrar hafa ekki haldið og óstöðugleikinn hefur reglulega valdið miklum búsifjum, ekki síst hjá launafólki. Nú er spurning hvernig tekst með nýrri peningastefnu að halda krónunni stöðugri, hvort við munum leita í smiðju dverganna og nota dyn kattarins, skegg konunnar, rót bjargsins, sinar bjarnarins, anda fisksins og hráka fuglsins. Eða munum við jafnvel komast að því að íslensku efnahagslífi nýttist best að nota aðra mynt? Frú forseti. Við þurfum nefnilega líka að skoða það.