146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:56]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur flutt okkur skýrslu sína um afnám fjármagnshafta sem tilkynnt var í gær og tekur gildi frá og með morgundeginum. Óhætt er að segja að það séu orðin sannkölluð vatnaskil í uppgjöri við efnahagslegar afleiðingar hrunsins árið 2008. Loksins er samband okkar við umheiminn í efnahagslegu tilliti að komast í eðlilegt horf og við getum uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar okkar um fjármagnsflutninga án hafta.

Afnám haftanna er ótvírætt jákvæður viðburður. Um það held ég reyndar að þingheimur og þjóðin öll geti verið sammála. Með afnáminu er mikilvægum kafla í eftirmálum hrunsins að ljúka farsællega. Afnám haftanna er staðfesting þess að tekist hefur að rétta af hag okkar þannig að við erum með talsverðan afgang af utanríkisviðskiptum, erlend skuldastaða er ásættanleg, gjaldeyrisvaraforðinn mjög ríflegur og hagvöxtur mikill.

Full ástæða er til að ætla að afnám haftanna hafi jákvæðar efnahagslegar afleiðingar ef rétt er haldið á spöðunum í framhaldinu. Um framtíðina er hins vegar ávallt erfitt að spá. Sterkar líkur benda þó til þess að afnám haftanna, ásamt aðhaldssamri fjármálastefnu, þokkalegum friði á vinnumarkaði og markvissri endurskoðun peningastefnunnar eigi að stuðla að því að skapa meiri stöðugleika í gengismálum og jafnvægi í efnahagsmálum. Gangi þetta allt saman eftir eru meiri líkur en minni á að forsendur skapist fyrir betra lánshæfismati Íslands og þar með betri lánskjörum ríkisins og annarra innlendra aðila. Það á svo aftur að leiða til þess að vextir til almennings og íslenskra fyrirtækja lækki í kjölfarið.

Lækkun vaxtastigs á skuldum hins opinbera og landsmanna allra er gríðarlega mikilvæg í öllu tilliti. Lægri vaxtaútgjöld ríkisins auka það fé sem ríkið hefur til ráðstöfunar til annarra verkefna og ekki þarf að hafa mörg orð um það hve jákvæð áhrif lækkun vaxta hefur á heimilin í landinu. Má þar sérstaklega benda á þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Lækkun vaxta er tvímælalaust ein besta kjarabótin sem heimilin í landinu geta fengið.

Þá vil ég nefna að afnám haftanna ætti að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sækjast eftir erlendri fjárfestingu til uppbyggingar og sóknar inn á erlenda markaði.

Loks var stigið mikilvægt skref í gær með skipan verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnunnar. Henni er ætlað að meta ramma núverandi peningastefnu, greina hvaða umbætur er hægt að gera á núverandi peningastefnu með verðbólgumarkmið. Hitt er ekki síður mikilvægt að henni er falið að greina aðra valkosti við peningastjórnun, svo sem útfærslur á gengismarkmiði með hefðbundnu fastgengi eða í formi myntráðs. Verkefnisstjórnin á að skila niðurstöðum sínum á þessu ári.

Fyrir okkur í Viðreisn er þetta sérlega mikilvægt enda eitt af okkar helstu stefnumálum að skoða kosti myntráðs. Að mínu mati getur fastgengi eða myntráð einmitt verið góður upptaktur að upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu í fyllingu tímans.

Virðulegi forseti. Þessi áfangi hefur ekki náðst af sjálfu sér. Hann er endapunktur mikillar vinnu sem hófst strax og hrunið varð. Að þessu verki, sem staðið hefur í vel yfir átta ár, hafa komið fjölmargir stjórnmálamenn, embættismenn og ráðgjafar, innlendir sem erlendir. Full ástæða er til að hafa þetta í huga þegar smiðshöggið er rekið á þetta risavaxna verkefni sem íslenskt samfélag hefur tekist á við. Á þessum tíma hafa setið fimm forsætisráðherrar. Þeir hafa komið frá Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Fjármálaráðherrarnir hafa verið fimm, frá Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum, Samfylkingu og nú síðast Viðreisn. Það er því enginn einn stjórnmálaflokkur eða ráðherra sem getur með sanni sagt að árangurinn sé þeim einum að þakka.

Það verður þó ekki tekið af núverandi ríkisstjórn að henni tókst með samstilltu átaki að klára þetta á svona skömmum tíma. Árangurinn eigum við hins vegar saman og það er fagnaðarefni.