146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:21]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vitna í nokkra mikilvæga punkta úr stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Jafnvægi og framsýni eru leiðarstef ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar … Treysta þarf samkeppnishæfni Íslands … Ríkisstjórnin styður við víðtæka sátt á vinnumarkaði, ábyrgð í ríkisfjármálum og stöðugleika í gengis- og peningamálum … Unnið verður að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis … Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar, m.a. í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða. Ráðherranefnd mun hafa samráð við þingflokka og starfa náið með Seðlabanka Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og utanaðkomandi sérfræðingum, eftir atvikum á vettvangi Þjóðhagsráðs. Byggt verður á niðurstöðum skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti. Niðurstöður vinnunnar liggi fyrir á fyrsta starfsári … Losun hafta á fjármagnsflutninga helst í hendur við sterkari og heilbrigðari efnahagsstöðu landsins. Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að vinna markvisst áfram að framgangi áætlunar um afnám fjármagnshafta.“

Nú erum við að taka fyrsta skrefið af mörgum í að gera það að veruleika. Í gær var tilkynnt að öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði yrðu afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Ekki stóð til að gjaldeyrishöft vörðu í níu ár svo að hægt er að segja að í dag eigi að vera tilefni til að fagna. Afnámið felst í því að Seðlabankinn nýtir heimild í lögum um gjaldeyrismál til að veita undanþágur frá þeim takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem nú gilda með því að gefa út nýjar reglur um gjaldeyrismál og bindingu reiðufjár vegna innstreymis nýs erlends gjaldeyris. Ég vil ræða aftur nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis. Því verður að endurmeta forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands, m.a. í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustu og ört vaxandi gjaldeyrisforða.

Hægt er að segja einfaldlega að krónan sé allt of sterk. Markmið endurskoðunar er að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs.

Afnám gjaldeyrishafta mun líka hafa vaxtalækkandi áhrif í för með sér. Nú skapast aðstæður til að viðskipti verði frjáls fyrir alla innlenda aðila. Lánshæfismatsfyrirtæki hafa nefnt að það að viðskipti hafi ekki verið frjáls hafi skilað okkur lægra mati en ella. Lánshæfismatið mun batna verulega í framhaldi af þessari afléttingu og ætti að leiða til lægri vaxta fyrir íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki og heimili. Það eitt og sér er fagnaðarefni.

Mikilvægt er að ræða næstu skref, vanda vinnubrögð og hafa mikilvægt samráð sem mun skipta máli við gerð peningastefnunnar. Vinnan fram undan er mikilvæg fyrir almenning, atvinnulífið og heimilin í landinu öllu.