146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Frá því að gjaldeyrishöftin voru sett hefur verið stefnt að því að aflétta þeim. Áætlun var gerð árið 2011, þegar Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, var efnahagsráðherra og unnið var áfram með þá áætlun í tíð síðustu ríkisstjórnar. Höftin voru sett á til að verja kjör almennings. Það var nauðsynlegt að gera í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Staða okkar gagnvart kröfuhöfum var síðan styrkt þegar erlendar eigur þeirra voru færðar undir gjaldeyrishöftin með lagasetningu í mars 2012. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi reyndar atkvæði gegn því lagafrumvarpi en þá var sá flokkur í stjórnarandstöðu og ekki samvinnufús við vinstri stjórn, jafnvel ekki í svo stóru máli sem tryggði samningsstöðu Íslendinga við afnám hafta. Ef þau lög hefðu ekki verið sett værum við ekki í þeirri stöðu í dag að geta aflétt höftunum.

Við verðum að fá svör við því hvernig tryggt sé að kjör almennings muni ekki versna svo um munar við þessa aðgerð sem nú hefur verið boðuð. Hæstv. forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í gær að almenningur yrði aðeins óbeint var við afleiðingar þess að höftunum væri lyft og það á jákvæðan hátt. Getum við treyst orðum hæstv. ráðherra? Mun krónan ekki veikjast við þessar aðgerðir? Mun almenningur ekki verða var við það í versnandi kjörum? Einhverjir eru að gera sér vonir um að vextir muni lækka á næstu vikum. Hljótum við þá ekki að spyrja um þensluáhrif vaxtalækkunar og áhrif þeirra á kjör almennings til framtíðar?

Tímasetningin vekur líka upp spurningar. Er verið að ganga erinda þeirra sem vonast eftir því að gengi krónunnar lækki í kjölfar þessara aðgerða? Er þetta heppilegur tími þar sem svo skammt er liðið frá því að reynt var að fá krónueigendur til að samþykkja annað og mun verra tilboð með hótunum. Mun þessi atburðarás skaða trúverðugleika stjórnvalda? Stjórnvöld reyndu að þröngva aflandskrónueigendum til þátttöku í lokaútboði þar sem þeim var gerð grein fyrir að ef þeir tækju ekki þátt í því yrði þeim gert afar erfitt fyrir og yrðu að búa sig undir að sitja lengi lokaðir hér inni með fjármuni sína. Fjármálaráðherrann sem hótaði þeim er nú forsætisráðherra og sá hinn sami reiðubúinn til að gefa mikið eftir og leggja fram annað tilboð sem er mun hagstæðara fyrir þá sem höfnuðu afarkostunum. Er það staðfesting þess að mistök voru gerð með tilboðið með afarkostunum? Hefði verið hægt að loka samningunum þá með lægri upphæð, t.d. 170 kr. á evru eða a.m.k. betra verði fyrir okkur en verið er að bjóða nú?

Þrátt fyrir allar þær ósvöruðu spurningar sem fylgja losun gjaldeyrishaftanna er það samt svo að það skiptir máli að ná samningum og klára málin. Það á við um öll uppgjör í tengslum við hrunið. Óvissa er eftir sem áður í íslensku efnahagslífi. Óvissunni hefur ekki alfarið verið eytt þegar áhrifin af haftalosuninni er komin fram. Áfram búum við við áhættu. Helstu áhættuþættirnir nú um stundir eru krónan, eins og jafnan áður, ferðaþjónustan og húsnæðismarkaðurinn. Efnahagsástandið tengist þessum þremur þáttum sterkum böndum sem allir eru samofnir.

Enn og aftur höfum við komið okkur í þá stöðu að allt of mikið veltur á einni atvinnugrein. Lærdómurinn af hruninu átti ekki bara að vera sá að setja hertar reglur um fjármálafyrirtæki heldur ekki síður að láta ekki eina atvinnugrein vaxa okkur yfir höfuð. Við höfum ekkert lært hvað það varðar. Og nú er svo komið að húsnæðismarkaðurinn er undir líka. Húsnæðismálin eru ekki bara efnahagsmál heldur líka stórt velferðarmál.

Við þurfum að ná betri tökum á stjórn efnahagsmála. Við vitum að íslenska krónan er uppspretta óstöðugleika. Við vitum að vextir hér á landi eru byrði á íslenskum heimilum og með þeim hæstu sem þróuð lönd búa við. Við vitum að þekkingargeirinn kallar eftir stöðugleika og alþjóðlegri mynt. Ætlum við að halda krónunni áfram og taka dýfurnar með henni með tilheyrandi kostnaði? Eða ætlum við að taka upp annan gjaldmiðil sem færir okkur lægri vexti, heilbrigðari húsnæðismarkað og fjölbreytt, vel launuð störf?

Herra forseti. Ég held að við þurfum ekki að velta vöngum lengi yfir svörum við þessum spurningum. Mér finnst þau vera augljós.