146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:30]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir umræðuna og þakka forseta fyrir að hafa komið henni á dagskrá með svona litlum fyrirvara. Þetta var ekki undirbúið fyrr en í gær þannig að ég þakka bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Það hefur oft skort á almennilega þinglega umræðu um stórmál sem þessi. Ég verð að þakka fyrir það.

Afnám hafta eru vissulega jákvæð tíðindi að mínu mati. En á vissan hátt er ástæða til að staldra við, líta um öxl og hugsa hvað við eigum að gera í framtíðinni. Sporin hræða. Það er ástæða fyrir því að margir sem hafa komið hér í pontu eru ekki of bjartsýnir á þetta skref. Þótt ég haldi að flestir séu sammála um að kominn sé tími til að losa höft er þetta ekki spurningin um endalokin heldur hvernig við komumst þangað.

Það sem við ræðum núna er ekki alger losun hafta. Þetta er ekki: Já, til hamingju Ísland, losun hafta. Ekki eins og hæstv. fjármálaráðherra lét í veðri vaka. Það eru enn höft á afleiðuviðskipti í íslenskum krónum til spákaupmennsku, á gjaldeyrisviðskipti milli innlendra og erlendra aðila sem ekki eru gerð fyrir milligöngu innlendra fjármálafyrirtækja og á lánveitingar innlendra aðila til erlendra aðila í vissum tilvikum. Þetta eru höft. Þetta eru höft sem varða fáa en þetta eru þó höft. Sem betur fer, ef svo má segja, erum við ekki komin í þetta taumlausa frjálshyggjufrelsi sem var hér 2002 þegar krónan fór á algert flot. Það er vissulega tilefni til fagnaðar þrátt fyrir allt að alla vega sé verið að stíga ákveðin varúðarskref í þessum málum.

Eitt atriði hefur ekki verið fullrætt. Hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra hefur sýnt fram á með nógu afgerandi hætti hvort eftirmálar verði af gjaldeyrisútboðinu, aflandskrónuútboðinu, í júní. Af hverju fengu sumir sérmeðferð núna sem byrjaði síðasta mánudag í New York og var síðan tilkynnt í gær til formanna? Mun það draga dilk á eftir sér? Þetta var ekki það sem fólk bjóst við. Ekki ég. Ég verð því að fá að spyrja og fá skýrt svar frá hæstv. fjármálaráðherra hvort við séum búin að gulltryggja okkur. Mun þetta verða til þess að íslenska ríkið fái málsókn á hendur sér? Sumir gátu farið út á genginu 137,50 en aðrir á 190 kr.

Annað tel ég mjög sérstakt. Á sama degi og tilkynnt er um afnám hafta er líka tilkynnt um nýja stefnu eða drög að nýrri stefnu um gjaldeyri og gjaldeyris- og peningastefnu á Íslandi. Það er ekki skýrt hver framtíð krónunnar verður þrátt fyrir afnám hafta. Við erum ekki með neinar sviðsmyndir. Það er ekki eins og ríkisstjórnin sé að ráðfæra sig við kristalskúlur, er það? Ég hugsa að ríkisstjórnin hafi einhverjar hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að fara fram. Krónan er nú þegar búin að veikjast. En hvað hyggst ríkisstjórnin gera ef hún kolfellur? Hvað ef hún heldur áfram að styrkjast? Það yrði væntanlega til þess að lífeyrissjóðirnir færu úr landi og fjárfestu erlendis að hluta til. En það er ekkert víst. Hvað þá?

Mun ríkisstjórnin setja gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna ef þeir fara ekki út í auknum mæli? Þetta eru svör sem við verðum að fá. Hér er verið að losa höft án þess að ríkisstjórnin sé með skýra hugmynd um hvert hún ætlar að stefna í peningamálum. Það sést á því að hæstv. fjármálaráðherra tilkynnir sama dag um endurmat á peningastefnu Seðlabanka Íslands. Peningastefna og gjaldeyrisstefna eru sérfræðimál en ekki eitthvað pólitískt, segir hæstv. fjármálaráðherra nánast. En þetta er hápólitískt. Við erum að tala um að það eru sérfræðingar sem eru tengdir Samtökum atvinnulífsins, Sjálfstæðisflokknum, Gamma og klappstýru- og greiningardeild Kaupþings banka. Er eitthvað skrýtið að tala um að 2007 svífi yfir vötnum?