146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um hvenær árið núll hafi verið. Ég var líka staddur hér á þingpöllum þegar neyðarlögin voru sett. Það var drungi yfir öllu. Höftin voru ill nauðsyn og margir hafa lagt hönd á plóginn til að afnema þau. Ég ætla að nefna menn sem þorðu að taka ákvarðanir, menn úr ólíkum flokkum. Það var Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og forsetinn, sem að baki mér situr, sem þorðu að taka ákvarðanir, ákvarðanir sem við gátum alls ekki vitað, hvorki þeir né aðrir, að væru réttar eða rangar, en ákvarðanirnar þurfti að taka.

Hér hefur verið spurt hvers eðlis samkomulag sem gert hafi verið við aflandskrónueigendur sé. Samkomulagið er þess eðlis að þeim er gert tilboð um að kaupa af þeim þeirra eign á genginu 137,50 evran. Ef þeir ganga að tilboðinu þá er samningur kominn á. Flóknara er málið nú ekki.

Það hefur verið talað um að ekki hafi verið settar upp sviðsmyndir, en á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í gær leyfði ég mér að segja hvað gæti gerst. Seðlabankastjóri gat að sjálfsögðu ekki gert það, hann er bundinn trúnaði vegna þess að hann er að taka ákvörðun um vexti síðar í vikunni. Það vissu hv. nefndarmenn auðvitað. En ég velti því fyrir mér og spái því að vextir muni lækka í kjölfar þessarar ákvörðunar.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði hvort sá sem hér stendur hefði sagt ósatt. Hefði hv. þingmaður lesið lengra í ræðu þeirri sem hann vitnaði til þá hefði hann séð að ég sagði einmitt að ég vonaðist til þess að höftunum yrði aflétt sem allra fyrst. Það gat ekki orðið miklu fyrr, hv. þingmaður.

Verður tekið upp myntráð án umræðu? Að sjálfsögðu verður það ekki tekið upp án umræðu. Það verður ekki tekið upp án lagasetningar. En ég er sammála mjög mörgum þingmönnum, sem hér hafa tekið til máls, um að krónan hefur ekki reynst okkur vinur í raun.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega umræðu hér í dag og fagna því að þingið skuli hafa rætt þetta. Það er ánægjulegt að heyra þann samhljóm sem er um að fagna því að höftum sé aflétt. Meginatriðið er að við Íslendingar getum gengið ánægð frá borðinu og meginatriðið er nú kannski það að við getum gengið frá þessu borði, að við þurfum ekki lengur að vera að hugsa um höftin.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði hvort ég teldi að þessi dagur ætti að vera fánadagur hér eftir. Ég þakka honum fyrir þá góðu hugmynd. Ég mun flagga á morgun. Ég segi aftur: Til hamingju.