146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

sala Arion banka.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég tek undir það að það er mjög ólíklegt að talan 9,99 sé tilviljun. Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að það er afar mikilvægt að vita í slíkum tilvikum hverjir eru endanlegir eigendur, þ.e. hverjir eiga þessa sjóði sem um ræðir.

Nú er rétt að upplýsa að það er ekki fjármálaráðuneytið sem metur hæfi manna til að fara með eignarhlut heldur er það Fjármálaeftirlitið sem gerir það. Fjármálaeftirlitið fer eftir reglum þar um. Þó að almenna reglan sé sú að miðað sé við 10% eignarhald þá getur Fjármálaeftirlitið, ef eignarhald er t.d. dreift, horft á aðila sem eiga verulegan eignarhlut eða eignarhlut sem er líklegt að verði ráðandi, þó að tölunni 10% sé ekki náð.

Ég tel afar mikilvægt að farið sé yfir þetta og það sé farið yfir þetta í samræmi við reglur. Mér er ekki kunnugt um að þessir aðilar séu tengdir aðilar í skilningi neinna laga, mér skilst að þetta séu mismunandi sjóðir.

Fjármálaráðuneytið hefur upplýsingar um það að gengið í þessum viðskiptum sé yfir genginu 0,8 þannig að ég tel ekki ástæðu til að efast um þær upplýsingar. Það hefur margoft komið fram að það er mín skoðun að upplýsa eigi um endanlega eigendur að hlutafé.