146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

sala Arion banka.

[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann segir hér að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins sé gengið yfir 0,8. Getur hann upplýst Alþingi um hvert gengið er? Það er mikilvægt að þær upplýsingar liggi fyrir. Í öðru lagi kemur fram í máli hæstv. ráðherra að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir til að meta hæfi þrátt fyrir að 10% markinu sé ekki náð. Kannski eru þessir aðilar ekki tengdir aðilar en það liggur fyrir að þeir ráðast sameiginlega í þessu kaup á sama tíma. Kallar það ekki á að Fjármálaeftirlitinu verði falið að meta hæfi þessara aðila? Og þá kem ég að því síðasta sem varðar hina endanlegu eigendur. Hér er um íslenskan viðskiptabanka að ræða sem varðar mjög miklu fyrir íslenskt atvinnulíf en ekki síður íslenskan almenning, hann fer með mörg fasteignalán íslensks almennings svo dæmi sé tekið, (Forseti hringir.) gríðarstórar fjárhæðir. Það er algert prinsippmál og mikilvægt fyrir almannahagsmuni, sem hæstv. ráðherra hefur nú talað mikið fyrir, að endanlegt eignarhald verði upplýst. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja að það verði gert? (Forseti hringir.) Hann segir að hann vilji sjá það upplýst. Hvernig ætlar ráðherra að sjá til þess að það verði upplýst?