146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áform um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég ætla svo sannarlega að vona að það verði ekki endurreisn hrunsins eins og hv. þingmaður orðaði það svo skáldlega. Ég er algjörlega sammála því að til þess eru vítin að varast þau og ekki var staðið rétt að einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Ég hef lýst því yfir í þessum ræðustól að ég telji að við eigum að fara okkur hægt. Ég held að við eigum að vanda okkur við þetta eins og mögulegt er þannig að okkur verði ekki aftur á þau mistök sem urðu árið 2003 og 2004 þegar menn voru að einkavæða bankanna.

Það eru engin sérstök áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka. Ég veit ekki til þess að neinir kaupendur hafi tilkynnt að þeir hafi áhuga á því og ríkið hefur ekki gert neitt til að bjóða þessa hluti til sölu. Svarið við því er að það eru engin sérstök áform uppi um það á þessum tíma og ég hef sagt að það væri betra og farsælla fyrir þjóðina að þetta verði selt hægt. Ef það tekur langan tíma, ef það tekur eitt kjörtímabil eða tvö, þá eigum við að frekar að gera það en að ana að einhverju sem við komum til með að sjá eftir síðar.

Um orðróm um sölu á Íslandsbanka get ég bara ekkert sagt. Ég hef ekki heyrt hann og hann er ekki frá mér kominn og ég ætti að vita um það ef menn væru að selja hann. Ég held að það skipti afar miklu máli, eins og ég sagði áðan, að við vöndum okkur. Ég held að allir hv. þingmenn séu mér sammála um að í þetta sinn eigum við að vanda okkur þegar hlutur ríkisins verður seldur í bönkunum.