146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

samskipti ríkisins við vogunarsjóði.

[15:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur spurði hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkru um samninga við vogunarsjóðina vegna afnáms hafta. Það verður að segjast eins og er að svar ráðherrans var sérkennilegt þar sem hann lýsti því yfir að engir samningar hefðu átt sér stað, en tveimur dögum síðar lágu fyrir samningar um kaup vogunarsjóðanna á aflandskrónum sínum. Núna erum við stödd á aðeins öðrum stað. Aftur eru spurningar um hvernig aðkoma stjórnvalda hefur verið að vogunarsjóðum sem eru að kaupa í Arion banka. Það var talað við einn af forsvarsmönnum þeirra sem eru að kaupa og hann gerði sér grein fyrir því að mönnum finnst óþægilegt að vogunarsjóðir séu að eignast banka á Íslandi. Þess vegna segir hann, með leyfi forseta, í Fréttablaðinu:

„Við höfum reynt að leika slíkt hlutverk í þessu ferli, ekki síst gagnvart stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum, svo að þessi kaup næðu fram að ganga.“

Því spyr ég: Í hvaða samskiptum áttu kaupendur við yfirvöld, fjármálaráðherra og/eða Seðlabanka, í aðdraganda kaupanna? Kynntu kaupendur á einhverjum tímapunkti áform sín um að kaupa hluti í Arion banka?

Það má líka spyrja: Hafa hæstv. fjármálaráðherra eða starfsmenn hans hitt þessa vogunarsjóði til að ræða kaup þessara aðila á Arion banka? Er fjármálaráðherra tilbúinn að leggja fram fundargerðir frá New York fundinum með upplýsingum um hverjir sátu þann fund og um hvað var rætt?

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa keppst við að lofa þetta, kallað þetta tímamót og sagt þetta sýna styrkleika í efnahagslífi þjóðarinnar. Tímamótin virðast því miður aðallega felast í því að nú virðist arðurinn eiga að renna úr landi, frá bankanum til erlendra eigenda, og vaxtagreiðslur heimilanna renna þar af leiðandi þangað. Því er áhugavert að bæta við þeim spurningum hvort salan á 30% hlut Arion banka sé í samræmi (Forseti hringir.) við eigendastefnu stjórnvalda. Og verða erlendir sjóðir jafn velkomnir fjárfestar þegar kemur að sölu á ríkisbönkunum? Verður það líka talið styrkleikamerki og tímamót?