146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

samskipti ríkisins við vogunarsjóði.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Því er til að svara við fyrirspurn hv. þingmanns að ég hef ekki átt í neinum samskiptum við þessa kaupendur. Mér er ekki kunnugt um að neinn þessara kaupenda hafi átt í samskiptum við starfsmenn fjármálaráðuneytisins. Það er rétt að minna á að það er ekki ríkið sem er að selja þessa hluti, það er Kaupslit sem er að selja þessa hluti minnir mig að það heiti, þ.e. það er slitabú Kaupþings sem er að selja hlutina.

Þegar gerðir voru stöðugleikasamningarnir við þessi slitabú í fyrra var það gefið upp að þeir mættu selja hlutina samkvæmt ákveðnum reglum. Ég reikna með því að hv. þingmaður sem sat þá í ríkisstjórn hafi fallist á þær reglur fyrir sitt leyti.

Hv. þingmaður spyr líka um fundinn í New York. Það vill nú svo til, af því hann hefur áður vísað til þessa fundar sem leynifundar, að hv. þingmaður vissi nú af þeim fundi fyrir fram og hverjir myndu sitja hann fyrir Íslands hönd, en ég get vel upplýst það hér. Það voru Benedikt Árnason úr forsætisráðuneytinu, Guðmundur Árnason úr fjármálaráðuneytinu og Jón Sigurgeirsson úr Seðlabankanum. Ég get alveg staðið við þau orð mín síðast að ekki var gengið frá neinum samningum á þeim fundi enda var ég búinn að lofa því að upplýsa það þegar í stað ef eitthvað slíkt yrði.