146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

fátækt á Íslandi.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er hörmulegt til þess að vita hve bág kjör margra í samfélagi okkar eru. Ég get jafnframt tekið undir það með þingmanninum að í því er ekki hægt að benda á einhvern einn eða eina ríkisstjórn og segja að hún ein hafi brugðist. Þetta vandamál hefur verið lengi. Það hefur verið viðvarandi. Við verðum sem samfélag að reyna að grípa þar inn í með þeim ráðum sem við mögulega getum.

Við höfum í þessari ríkisstjórn t.d. verið að grípa til ráða í sambandi við húsnæðismálin sem bent hefur verið á að eru vandi margra, ekki bara fátækasta fólksins heldur líka margra sem eru að koma inn á húsnæðismarkaðinn í fyrsta sinn, ungt fólk, námsmenn og fleiri. Ég held hins vegar að leiðirnar sem hv. þingmaður benti á, að leggja á ýmiss konar skatta, hátekjuskatta, hækka skatta af ýmsu tagi, leiði ekki til þess að útrýma fátækt. Það myndi hins vegar breyta mjög skattheimtulagi ríkisins. Ég held að það sé betra að fólk hafi sjálft ráð yfir peningum sínum eins og mögulegt er. En við verðum auðvitað að hafa næga skattheimtu þannig að við getum borið það velferðarsamfélag sem við erum öll sammála um að eigi að vera á Íslandi.