146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[16:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál í þinginu. Það hefur lengi legið fyrir að nauðsynlegt er að setja löggjöf um nýtingu strandsvæða. Ég þakka einnig hæstv. ráðherra þau svör sem hún gaf.

Hér er fjallað um haf- og strandsvæði. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé fyrst og fremst verið að tala um skipulag strandsvæða í þessu samhengi eða hvort allt hafið liggi undir, þ.e. 200 sjómílurnar, og þá hvernig ráðherrann sér það fyrir sér.

Við höfum m.a. fyrirmyndir frá Skotlandi og Noregi, sem eru mjög ólík, hvað þá Svíþjóð, og þurfum auðvitað að skoða þetta sjálf. Mín skoðun er sú að við eigum að einbeita okkur að strandsvæðunum þar sem mjög margt er að gerast, bæði á landi og eins rétt utar í sjónum, nefna má fiskeldi, kræklingarækt og önnur not af auðlindinni.

Ég skildi ráðherrann þannig að hún ætlaði ekki að breyta núgildandi löggjöf um fjarlægðir heldur væri þetta til netlaga. Ég vil biðja ráðherrann að bregðast við því ef það er ekki rétt skilið. Spurningin er þessi: Eru það þá svæðisráðin sem eiga að sjá um rest, þ.e. samstarf sveitarfélaganna og ríkisins?

Ég vil spyrja ráðherrann: Hver á að staðfesta skipulag á þeim svæðisráðum? Í hvaða höndum er það verkefni að staðfesta skipulagsáætlanir strandsvæða, sem geta fallið undir þó nokkur sveitarfélög og jafnvel heila landshluta?

Ég sé að tíma mínum er lokið og ég verð því að senda fyrirspurn varðandi leyfisveitingar beint til ráðherrans, til að fá þau svör, ef þau birtast ekki hér í samtalinu.