146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[16:04]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Gömlu netalögin gefa sjávarjarðareigendum leyfi til að nytja frá meðalstórstraumsfjöru út að 115 metrum. Nú liggja fyrir frumvörp, ýmist á leiðinni til þingsins, frá fráfarandi þingi eða ný af nálinni, eins og um nytjar þangs og þara, og eins varðandi heildstæða stefnumótun um laxeldi. Landeigendur hafa hingað til verið leyfisveitendur í þangtöku í fjörum sínum. Því kemur það mér spánskt fyrir sjónir að veita sérstök leyfi og beita kvótakerfi á þangtöku, en klóþang vex einmitt í fjörum á litlu dýpi.

Má landeigandi ekki nytja fjörur sínar ef kvótinn er uppurinn? Þegar kvótinn er uppurinn utan netalaga, eiga þá landeigendur að geta leyft aðilum að strípa sínar fjörur gegn gjaldi? Ættu landeigendur að geta tekið sig saman og stofnað til laxeldis inni á firði í sínu eigin landi? Á ríkið að geta veitt leyfi fyrir stórfelldu laxeldi sem mengar síðan fjörur landeigenda, nú þegar eigendur veiðiáa hafa sleppt seiðum í áratugi í sínar ár og enginn hefur getað meinað þeim það?

Það reynist landeigendum hins vegar erfitt að fá leyfi til að setja upp kræklingarækt, sem er töluvert minna raskandi en t.d. laxeldi. Því spyr ég ráðherra: Er ekki rétti tíminn núna til að móta heildstæða stefnu um nytjar strandveiða í samvinnu við sveitarfélög áður en ráðist er í kvótasetningu þangs og þara eða stærðarinnar laxeldisáform verða að veruleika? Málshefjandi nefndi að fjórar undirstofnanir veittu nú leyfi til nytja á strandsvæðum. Þarf ekki að færa þetta skipulagsvald undir eina stofnun? Þurfum við ekki að rannsaka frekar áhrif á þangtöku áður en við kvótasetjum iðjuna? Þurfa þessir hlutir endilega að gerast samhliða eins og áform ríkisstjórnarinnar hljóma?