146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

hamfarasjóður.

187. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum 16. febrúar 2016 að stofnaður yrði sérstakur sjóður, hamfarasjóður, sem hefði það hlutverk að sinna forvörnum og samhæfingu verkefna, náttúruvár, og um leið verkefna á sviði forvarna. Hamfarasjóður á jafnframt að hafa umsjón með greiðslu tiltekins kostnaðar opinberra aðila og bóta í takmörkuðum tilvikum vegna tjóns sem verður af völdum náttúruhamfara. Það er gert ráð fyrir að hamfarasjóður verði deildaskiptur í forvarna- og bótasjóð. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið átti að vinna að framfylgd tillagna um stofnun hamfarasjóðsins á grundvelli ákvörðunar þessarar ríkisstjórnar.

Meðalkostnaður ríkissjóðs á ári frá árinu 2008–2016 vegna hamfara nam 456 millj. kr., þannig að þetta er greinilega stórt mál. Ég lagði því eftirfarandi fyrirspurnir fyrir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra:

Hvenær er að vænta aðgerða í samræmi við ákvörðun fyrrverandi ríkisstjórnar?

Er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar sérstök stofnun til að sinna verkefnum hamfarasjóðs eða hvernig verður þeim sinnt að öðrum kosti?

Hvernig sér ráðherra fyrir sér nægt fjármagn, að það verði tryggt með einhverju móti?

Allt eru þetta mikilvægar spurningar vegna þess að einhvern veginn hefur það farið svo að frá því í febrúar 2016 hefur mjög litlum fregnum farið af hamfarasjóði.