146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

framhaldsskóladeild á Reykhólum.

191. mál
[16:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það vakna og kvikna margar spurningar í kjördæmavikum þingmanna, eðlilega. Það er mjög ánægjulegt að þær séu bornar inn á löggjafarsamkunduna til umræðu og íhugunar fyrir alla sem hér sitja. Það er mjög hollt að þingmenn heyri það sem brennur á fólki vítt um land, sem er kannski ekki alla jafna í fjölmiðlum á degi hverjum.

Þetta er eitt af slíkum málum þar sem heimamenn eru að reyna að vinna að framfaramálum fyrir sína sveit og það er vel. Því ber að fagna.

Ég hef ekki upplýsingar um það hvenær og hvernig stendur á í tíma varðandi þetta verkefni. Það er hins vegar alveg ljóst, eins og ég gat um í fyrra svari, að ef við ætlum að sjá þetta verða að veruleika verðum við að sjá því stað í fjárlögum viðkomandi árs. Það er nokkuð ljóst að þetta er ekki á fjárlögum ársins 2017. Í fyrsta lagi gæti þetta þá komið inn í tengslum við fjárlagagerð ársins 2018. Það verður tíminn að leiða í ljós. Ef skoðun ráðuneytisins er á þann veg að þetta sé vel gerlegt og æskilegt sé að fara til þess starfs þarf þá að skoða og leita eftir fjármögnun til verkefnisins, ef niðurstaða athugunarinnar verður jákvæð.