146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í hjúkrunarfræði.

192. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar sem eru þrjár.

Í fyrsta lagi er spurningin sú hvort ég hyggist beita mér fyrir auknu fjármagni til námsbrauta í hjúkrunarfræði til að koma til móts við skort á hjúkrunarfræðingum. Því er til að svara að ég hyggst í störfum mínum leggja áherslu á fjármögnun háskólakerfisins í heild en ekki beita mér sérstaklega fyrir auknu fjármagni til einstakra námsbrauta.

Í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar og fjárlögum fyrir þetta ár er skýrt kveðið á um að gerð verði áætlun um hvernig efla megi fjármögnun á hvern nemanda í háskólunum. Ég hyggst halda þeirri áætlun til streitu og vinna að bættum gæðum og fjárveitingum til háskólakerfisins, m.a. með endurskoðun á reiknilíkani háskólanna. Slík áhersla gagnast háskólakerfinu í heild sinni, sérstaklega háskólunum, og hjúkrunarfræðinni til jafns við aðrar greinar.

Þegar spurt er um með hvaða hætti ráðherra ætli að bregðast við brottfalli úr námi í hjúkrunarfræði þá ber að vitna til þess að brotthvarf úr einstökum greinum eða námsbrautum háskóla er viðfangsefni háskólanna sjálfra sem sjálfstæðra stofnana, þannig að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki beitt sér sérstaklega í slíkum afmörkuðum viðfangsefnum. Ég hyggst hins vegar beita mér fyrir aukinni skilvirkni og bættri framvindu í háskólanámi almennt, m.a. með breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og endurskoðun á reiknilíkani fyrir fjárveitingar til háskólanna, eins og ég nefndi áðan. Það er sömuleiðis álitamál hvort brotthvarf úr námi í hjúkrunarfræði skilur sig á einhvern hátt frá námi í öðrum greinum á háskólastigi.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands um brautskráningarhlutfall nemenda á háskólastigi árið 2012, sem var uppsafnað fyrir 10 ár, var meðaltalið rúmlega 69%. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist frá Háskóla Íslands var meðaltal útskrifaðra hjúkrunarfræðinga frá Háskóla Íslands 2011–2016 83%, sem er nokkuð hærra en almennt meðaltal. Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum á Akureyri hafa á síðustu árum um eða yfir 90% þeirra sem hefja nám í hjúkrunarfræði brautskráðst frá skólanum þar.

Ég vil sömuleiðis benda á að samkvæmt tölum um útskriftir hjúkrunarnema í aðildarlöndum OECD frá 2013, en þetta eru nýjustu alþjóðlegu samanburðartölur sem við höfum undir höndum, útskrifuðu íslenskir háskólar 73 hjúkrunarfræðinga á hverja 100.000 íbúa. Það er hæsta hlutfall brautskráðra hjúkrunarfræðinga á íbúa á öllum Norðurlöndunum og einungis útskrifuðu fimm ríki innan OECD fleiri hjúkrunarfræðinga.

Þótt hafa beri það í huga að flestir heilbrigðisstarfsmenn starfa á höfuðborgarsvæðinu er Ísland strjálbýlt land og sinna þarf heilbrigðisþjónustu á landsvísu sem kallar á fleiri hjúkrunarfræðinga en í þéttbýlli löndum.

Af framansögðu er ljóst að vandinn liggur ekki endilega í því að við menntum ekki nægilegan fjölda hjúkrunarfræðinga heldur frekar að þeir hjúkrunarfræðingar sem við menntum í háskólunum skila sér ekki til vinnu hjá íslenskum heilbrigðisstofnunum. Það er viðfangsefni sem þarf að skoða sérstaklega. Það er alveg hárrétt sem hv. málshefjandi nefndi áðan að þúsund útskrifaðra hjúkrunarfræðinga sem starfa við eitthvað annað en fagið sem við menntuðum viðkomandi til, þ.e. við hjúkrun.

Því tengist það lokaspurningu frá hv. þingmanni. Spurt er hvort ég ætli að beita mér fyrir því að fjölga verknámsplássum fyrir hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðisstofnana og þá hvernig. Eins og ég hef bent á tel ég ekki að meginvandinn við mönnun starfa við hjúkrun sé kominn til vegna þess að ekki nógu margir mennti sig í faginu. Verkleg kennsla hjúkrunarfræðinema fellur undir lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og er framkvæmd þeirra á ábyrgð heilbrigðisráðherra.