146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í máltækni.

254. mál
[16:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Þær eru í tveimur liðum og lúta að framtíðarhorfum í máltækninámi á háskólastigi. Hér er spurt hvort til standi að styrkja sérstaklega nám í þeirri grein með tilliti til áætlana stjórnvalda um að efla íslensku í stafrænum heimi. Fyrirspyrjandi vitnaði réttilega til samþykktar sem síðasta ríkisstjórn gerði og það var á fundi ríkisstjórnarinnar 2. september sl. Þar var samþykkt að leggja til 50 millj. kr. á fjáraukalögum á árinu 2016 til kortlagningar á tækni fyrir máltækni, stefnumörkunar og vals á tæknilegri útfærslu fyrir íslenskuna, stöðumats íslenskra gagnasafna og gerðar nákvæmrar fjárhags- og verkáætlunar fyrir fimm ára markáætlun á sviði máltækni fyrir íslensku.

28. október sl. var skipaður sérstakur stýrihópur yfir þetta verkefni. Meginverk hans er að setja upp verkáætlun um máltækni fyrir íslenskuna. Í tengslum við þá vinnu stýrihópsins er verið að vinna jafnhliða að skýrslu um stöðu og framtíð menntunar í máltækni. Í þeirri skýrslu á að fjalla sérstaklega um almenn námskeið í háskólum sem tengja megi við máltækni eða máltækniverkefni, hvernig skuli skipuleggja meistaranám í máltækni og hvaða verkefni gætu fallið innan þess. Jafnframt á í þeirri skýrslu að taka sérstaklega á þáttum sem lúta að doktorsnámi sem gætu tengst máltækni á hinum ýmsum fræðasviðum háskóla hér á landi.

Þá skýrslu munu fjórir háskólakennarar vinna, tveir frá tölvunarfræðideildum Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands og frá íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og fulltrúar frá samtökum atvinnulífsins. Það er von á skýrslunni á næstu mánuðum. Hún er beinlínis tengd þeirri fimm ára aðgerðaáætlun um máltækni fyrir íslenskuna sem ég nefndi áðan. Síðast þegar ég frétti af því verki og spurðist fyrir um stöðu þess máls átti ég að fá tillögur að markáætlun núna á vormánuðum.

Svo er spurt hvort teknir verði inn nýir nemendur í meistaranám í máltækni við Háskóla Íslands næsta haust og ef svo er ekki hver ástæðan sé. Meistaranámið í máltækni á háskólastigi hefur verið rekið í samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík frá árinu 2007. Í upphafi, og nú eru þetta upplýsingar sem mér eru bornar úr ráðuneytinu, var ákveðið að taka inn annað hvert ár og gekk það upp að mestu leyti fram til ársins 2015. Fram að árinu 2011 var námið rekið í samstarfi við Norræna máltækniskólann sem gerði háskólunum kleift að senda nemendur í stutt námskeið við háskóla á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum. Þegar því samstarfi lauk skilst mér að það hafi veikt mjög námsframboð í máltækni hér á landi. Af þeirri ástæðu hafi Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík ákveðið að bjóða ekki upp á meistaranám í máltækni veturinn 2016–2017, m.a. vegna skorts á hæfum kennurum og erfiðleikum með að bjóða upp á sérhæfð námskeið í máltækni.

Persónuleg skoðun mín á þessu máli er sú að ég tel mikilvægt að líta til forgangsröðunar í þágu máltækni á háskólastigi, bæði hvað varðar skipulag og fjármögnun. Ég hef óskað eftir að það verði skoðað sérstaklega í tengslum við aðgerðaáætlun um máltækni fyrir íslenskuna sem ég nefndi áðan. Ég hef heyrt utan að mér, án þess að hafa fengið það staðfest, að legið hafi fyrir að það væri áhugi og nemendur sem vildu gjarnan komast til þessa náms. Ég hef ekki fengið aðrar skýringar en þær sem ég hef rakið á því hvers vegna ekki hefur verið boðið upp á þetta. Vilji minn stendur til þess að tengja þetta því verki sem ég hef gert að umtalsefni um aðgerðaáætlun eða markáætlun í máltækninni og ég bind vonir við að við getum einhvern veginn fjármagnað starf innan háskólans á þessu sviði í tengslum við það verkefni.