146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í máltækni.

254. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þær upplýsingar sem hann kemur hér fram með. Ég viðurkenni að mér var ekki kunnugt um að ekki hefði heldur verið boðið upp á þetta nám þennan veturinn, þ.e. 2016–2017, sem eykur nú enn á áhyggjur mínar í ljósi þess að við höfum verið að ræða þetta mál í raun og veru allt frá 2013 þegar fram kom sterkt ákall um það þyrfti að fara að vinna að þessum málum. Það liggur fyrir að þessi verkefni, eins og önnur, skertust eftir hrun. En það má líka benda á að það átak sem ráðist var í í tíð hæstv. fyrrverandi ráðherra Björns Bjarnasonar var tímabundið en það skipti miklu máli. En ég held að staðan núna sýni okkur að ekki er hægt að gera þetta bara með átaksverkefni. Það þarf að tryggja viðvarandi nám, kennslu og rannsóknir á þessu sviði.

Þetta eykur enn á áhyggjur mínar í ljósi þess að tíminn líður ansi hratt í þessum málum. Við sjáum tæknina þróast með miklum hraða, en vitum um leið að við höfum ekki staðið okkur í því að uppfæra þessa tækni.

Hæstv. ráðherra vitnar til þess að veittar hafi verið 50 milljónir á fjáraukalögum 2016 til mótunar aðgerðaáætlunar og að fyrir liggi áætlanir um ákveðna fjármuni til lengri tíma. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það geti nýst til þess að bjóða upp á það nám sem kynnt er á heimasíðu HÍ sem samstarfsverkefni HÍ og HR veturinn 2017–18, að það sé unnt? Hæstv. ráðherra segir, og ég hef heyrt hið sama, að það virðist vera talsverður áhugi á náminu. Mér finnst tækifærin vera að fara fram hjá okkur, að við fáum ekki inn nemendur sem séu að fara að undirbúa sig undir það að taka þátt í því stóra verkefni sem fram undan er.