146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í máltækni.

254. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hv. fyrirspyrjanda af því að við séum ekki að halda í við hraða tækninnar, ekki að mæta þeim áskorunum sem þar eru uppi og gera í raun ekkert annað en að aukast. Þeim fjölgar viðfangsefnunum sem við þurfum að glíma við á degi hverjum og á meðan við mætum þeim ekki með einhverjum hætti lætur íslenskan undan síga. Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá og höfum ágætan samhljóm í því hér í þessum sal að reyna að berjast gegn þeirri þróun.

Þegar spurt er um fjármögnun á þessu námi veturinn 2017/2018, hvort þessi aukafjárveiting geti gagnast í þeim efnum, þá þekki ég það ekki. En ég mun skoða það og leita þeirra leiða sem færar eru til þess að mæta þeim áhuga sem við erum, bæði fyrirspyrjandi og sá sem hér stendur, upplýst um að sé fyrir hendi í háskólasamfélaginu, þar sé áhugi fyrir hendi að takast á við nám í þessum fræðum. Við erum á þeim stað í tíma að við eigum að nýta og grípa sérhvert tækifæri í þeim efnum sem gefst til að geta barist gegn þessu. En veröldin er svo fljótandi og hröð í dag að ég heyrði fyrst af þessum hugrenningum í einni lítilli fésbókarfærslu þar sem ég bara rakst á þessar upplýsingar sem við höfum verið að skjóta hér á milli okkar.

Lokaorð mín í þessu eru þau að ég mun nýta sérhvert það tækifæri sem ég get komið auga á til að skjóta styrkari stoðum undir þá vinnu sem við ætlum að leggja í á þessu sviði til þess að mæta þeim áskorunum sem íslenskan stendur frammi fyrir.