146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

sala eigna á Ásbrú.

155. mál
[17:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrirspurnina. Hún spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að þeir fjármunir sem fáist af sölu eigna á Ásbrú, fyrrum varnarsvæðinu í Reykjanesbæ, verði notaðir til uppbyggingar á svæðinu.

Fyrst vil ég ræða aðeins um aðdraganda og helstu tölur. Við yfirtöku íslenska ríkisins á fyrrum varnarsvæðinu var því skipt upp í þrjú skilgreind svæði, A, B og C. Svæði A er flugvallarsvæðið. Það er stærsti hluti flugverndarsvæðisins og landsvæði og byggingar sem nýttar eru til flugrekstrar. Svæðið er í umsjá Isavia. Svæði B er öryggissvæði, þ.e. sá hluti flugverndarsvæðisins sem nýttur er til varnarþarfa, svo sem reksturs ratsjárkerfa og loftrýmisgæslu. Starfssvæði C er í grófum dráttum sá hluti fyrrum varnarsvæðisins sem er utan flugverndargirðingarinnar.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 176/2006, um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu, var heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á þessu síðastnefnda svæði, C. Markmiðið var að koma svæðinu hið fyrsta í arðbær borgaraleg not. Enn fremur var heimilt að fela félaginu umsýslu tiltekinna fasteigna á flugvallarsvæði og önnur verkefni sem tengjast framþróun og umbreytingu flugvallarsvæðis og starfssvæðis.

Á svæði C, sem er tæplega 60 ferkílómetrar lands sem umlykur flugvöllinn, voru í heildina um 320 þús. fermetrar af húsnæði miðað við brúttóflatarmál, þar af um 210 þús. fermetrar af íbúðarhúsnæði. Afgangurinn, 110 þús. fermetrar, eru iðnaðar- og þjónustuhúsnæði.

Þegar búið var að færa fasteignirnar til skráningar hjá Þjóðskrá Íslands voru birtir fermetrar um 280 þús., þar af um 160 þús. fermetrar af íbúðarhúsnæði en 120 þús. fermetrar af iðnaðar- og þjónustuhúsnæði. Heildarfjöldi íbúða var 2.000, þar af 950 hefðbundnar fjölskylduíbúðir og 1.050 einstaklingsíbúðir. Samkvæmt upplýsingum frá Kadeco, Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, hafa um 94% húsakostarins verið seld til 40 mismunandi aðila. Jafnframt var veitukerfi svæðisins selt til hitaveitu Suðurnesja fyrir 84 millj. króna. Reykjanesbær tók við viðhaldi gatnakerfis svæðisins. Heildarsöluverð eigna í umsýslu félagsins nemur því um 18 milljörðum kr. hingað til.

Til þess að svara fyrirspurn hv. þingmanns þá hafa allar greiðslur vegna sölu eigna á svæði C runnið til ríkissjóðs og munu gera það áfram. Það er í samræmi við meðferð söluandvirðis allra annarra eigna ríkisins um allt land. Ég mun ekki beita mér fyrir því að gera undanþágu frá þessari reglu í þessu tilviki.

Í þessu samhengi er þó ágætt að nefna þau fjölþættu jákvæðu áhrif sem hlotist hafa af viðbrögðum yfirvalda og einkaaðila í kjölfar brottflutnings varnarliðsins. Fasteignagjöld af öllum fasteignum sem komið hefur verið í borgaraleg not renna til sveitarfélaga á svæðinu. Gera má ráð fyrir því að kaupendur og leigjendur fyrrgreindra eigna hafi til viðbótar kaupfjárhæð lagt umtalsverðar fjárhæðir í endurbætur eignanna til að gera þær nothæfar. Við fyrrgreindar ráðstafanir hafa orðið til fjölmargir nýir vinnustaðir á þessu svæði með tilheyrandi virðisaukandi og atvinnuskapandi starfsemi sem og skatttekjum svæðinu til heilla.

Yfir 650 manns starfa hjá 115 fyrirtækjum eins og t.d. Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, fjórum gagnaverum, fyrirtækjum í tækniklasa tengdum jarðvarma á Reykjarnesi sem og líftækni. Fjárfestingar eins þessara fjögurra gagnavera eru nú á þriðja tug milljarða.

Það er afar ánægjulegt að fylgjast með þeirri umbreytingu sem orðið hefur á Suðurnesjum á undanförnum árum þar sem atvinnuástand hefur breyst mjög til hins betra og fjölbreytileg störf eru nú í boði á svæðinu. Þá má benda á að fjárfestingar ríkisfyrirtækisins Isavia á flugvallarsvæðinu, svæði A, hafa verið umtalsverðar undanfarin misseri og áætlað er að þær verði enn umfangsmeiri næstu árin. Árleg fjárfesting hefur verið og verður upp undir 20 milljarðar kr. Gróflega má segja að á hverju ári sé þannig fjárfest fyrir jafnvirði heildarsöluverðmætis eigna svæðisins hingað til.

Að síðustu vil ég nefna að fundir hafa verið haldnir með sveitarfélögum á svæðinu um mögulegt samstarf um framtíðaruppbyggingu svæðisins og ráðuneytið mun halda þeim fundum áfram.

Varðandi síðustu fyrirspurn hv. þingmanns vil ég segja að ég hef verið með í undirbúningi fund með Kadeco en hef ekki mótað mér stefnu um framtíð félagsins.