146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

sala eigna á Ásbrú.

155. mál
[17:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil ítreka það að ég deili með hv. þingmanni áhyggjum af fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Ég held að hún sé öllum áhyggjuefni sem fylgst hafa með því hvernig bærinn hefur lent í miklum hremmingum sem hann er svo sannarlega ekki kominn út úr enn þá. Ég held að hins vegar sé kannski ofmælt að segja að enginn hluti af andvirðinu fari til uppbyggingar á svæðinu. Auðvitað fara skatttekjur með ýmsum hætti til uppbyggingar á svæðinu. Við vitum að það eru brýn verkefni sem þarf að vinna á Suðurnesjum. Ég get t.d. nefnt tvo hluti í samgöngum sem hafa verið mikið í fréttum að undanförnu, Grindavíkurvegur og breikkun á Reykjanesbraut, alla leið. Ég hygg að ég og flestallir þingmenn, kannski allir, séu sammála um að það er afar mikilvægt að fara í þær framkvæmdir. Vonandi verður hægt að ná nægum peningum til þess að það verði frekar fyrr en síðar.

Varðandi Kadeco get ég upplýst hv. þingmann um að það er búið að vera á dagskrá hjá mér býsna lengi að fara og heimsækja fyrirtækið. Það hefur af ýmsum ástæðum ekki fundist tími. Þetta hefur verið sveigjanlegur fundartími sem hefur færst til í dagskrá minni. Vonandi tekst mér innan tíðar að koma þangað og ég hlakka mikið til þess fundar.