146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

húsnæðisbætur.

226. mál
[17:26]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil taka það fram í upphafi að ég deili áhyggjum hennar af stöðu á húsnæðismarkaði almennt. Það er alveg ljóst að þar er kostur margra mjög þröngur og kannski ekki hvað síst nú vegna þess að það er einfaldlega mikill skortur á húsnæði og það eykur verulega hættuna á því að hvort heldur kaupverð eða leiguverð sé sprengt upp. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu mála og raunar er að störfum sérstakur átakshópur á vegum ríkisstjórnarinnar um það hvaða úrræða ríkisstjórnin geti gripið til til þess að liðka fyrir þessari þröngu stöðu á markaði.

Hv. þingmaður beinir til mín tveimur spurningum sérstaklega, annars vegar hvort við hyggjumst breyta frítekjumörkum hvað varðar húsnæðisbætur og þá hvenær. Svarið er einfaldlega já, við ætlum að gera það. Það er reglugerð í smíðum í velferðarráðuneytinu til þess að taka á þessari breytingu hratt og örugglega.

Forsaga málsins er afar einföld. Frá því að Alþingi afgreiddi lög um húsnæðisbætur sl. haust þá breyttust forsendur eða tekjuforsendur lægstu bóta þar sem bætt var við þær miðað við þær forsendur sem lagt var upp með í húsnæðisbótafrumvarpinu á sínum tíma. Þar af leiðandi varð í raun og veru misræmi milli lægstu bóta og frítekjumarka húsnæðisbótakerfisins. Það gefur auga leið og er eðlilegt að vænta þess að einstaklingur á lágmarksbótum sem býr einn njóti fullra húsnæðisbóta. Þessu munum við breyta og erum þegar að undirbúa það. Ég vænti þess að það geti gengið tiltölulega hratt og örugglega fyrir sig og taki vonandi gildi frá næstu mánaðamótum ef vel tekst til.

Hvað seinni hluta spurningarinnar varðar, hvort við hyggjumst breyta því fyrirkomulagi að aðrar tekjur, svo sem desemberuppbót og mögulega sérstakur stuðningur vegna lyfjakostnaðar, komi til frádráttar, þá er stutta svarið við þeirri spurningu: Nei. Grundvallaratriðið í endurskoðun húsnæðisbótanna var að allar skattskyldar tekjur kæmu til frádráttar og að gætt væri jafnstöðu milli einstaklinga óháð því hvaðan tekjur þeirra væru sprottnar. Húsnæðisbótakerfið var hannað með þetta í huga strax í upphafi þannig að það var bætt verulega. Það verður að hafa í huga að grunnfjárhæðin, hámarksfjárhæðin, var hækkuð úr 22 þús. kr. í 31 þús. kr. og er áætlað að útgjöld ríkissjóðs vegna þessa muni aukast um liðlega 2 milljarða til að ná þessari jafnstöðu, sem ég held að sé mjög mikilvægt.

Ég hef rætt um áður í öðru samhengi að það skipti gríðarlega miklu máli í stuðningskerfum okkur að við mismunum fólki ekki eftir því hvaðan tekjur þess koma heldur sé fyrst og fremst tekið mið af því hvort þær eru háar eða lágar. Það var grunnhugsunin sem var mjög til bóta í húsnæðisbótalögunum hinum nýju, ekki er lengur gerður greinarmunur á því hvaðan fólk hefur tekjur, það nýtur stuðningsins á grundvelli lágra tekna hvort sem þær eru af vinnumarkaði eða vegna örorkubóta eða annarra tekna. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli því ella getum við oft lent í því, það er alla vega mín skoðun, að það séu ákaflega röng skilaboð af hálfu hins opinbera að segja fólki: Við getum ekki veitt þér stuðning ef þú hefur lágar tekjur af vinnumarkaði, en við getum hjálpað þér miklu meira ef þú hefur lágar tekjur t.d. af örorku eða einhverju þess háttar. Að þessu þurfum við að gæta. Það er raunar ein af þeim aðgerðum sem við horfum líka til, til viðbótar stuðningi á húsnæðismarkaði, að beina þessum húsnæðisbótum og vaxtabótum mögulega, barnabótum og öðru slíku, einmitt að tekjulægstu hópunum, óháð uppruna tekna. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.