146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

húsnæðisbætur.

226. mál
[17:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og einnig hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir innskot hennar og athugasemd í þessa umræðu. Ég er glöð að heyra það að ráðherra deilir með mér áhyggjum af stöðu á húsnæðismarkaði. Ég vona svo sannarlega að þetta stutta samtal sem við eigum hér verði innlegg í þá stóru umræðu því það er mjög mikilvægt að því er ég tel að við nálgumst húsnæðismálin og stöðuna á húsnæðismarkaði út frá mjög mörgum ólíkum sjónarmiðum því þetta er mjög víðtækur og margbrotinn og svo sannarlega erfiður vandi sem margir standa frammi fyrir, því húsnæði er auðvitað eitt það dýrmætasta sem hver einstaklingur og hver manneskja á.

Ég vil byrja á að fagna fyrra svari hæstv. ráðherra um að það sé reglugerð í smíðum og vona að það standist að hún verði jafnvel bara tilbúin um næstu mánaðamót og hvet hæstv. ráðherra til góðra verka þar. Ég leyfi mér að spyrja: Er ráðherrann til í að upplýsa okkur hér og nú um það hver frítekjumörkin verða? Hvers verður að vænta þar?

Hvað varðar síðari spurninguna þá finnst mér ekki alveg jafn gaman að hæstv. ráðherra svari þar neitandi, en hann gerði svo sem ágætlega grein fyrir því hvernig hann nálgast það mál og það er alveg hægt að taka undir að það sé kannski ekki rétt að kerfið mismuni fólki eftir því hvaðan það hefur laun sín. En þá vil ég jafnframt benda á að það er mjög líklegt að lífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar, (Forseti hringir.) hafi vegna fötlunar sinnar háan lyfjakostnað. Þess vegna (Forseti hringir.) finnst mér að kerfið verði að taka tillit til þess. Mig langar því að stinga því að ráðherranum að önnur leið til að takast á við þann vanda er auðvitað að hækka bæturnar (Forseti hringir.) og koma þannig til móts við þá sem hafa háan lyfjakostnað.