146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í dag, þann 21. mars, er alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamismunun og hatri. Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar sérstaka áherslu á að vinna gegn fordómum, hatursorðræðu og hatursglæpum gagnvart flóttamönnum. Verkefnið er brýnt því að eins og við vitum öll eru fordómar og hatur gagnvart þessum viðkvæma hópi í hámæli, sem aftur veldur víðtækri mismunun og ofbeldi gegn fólki á flótta hér heima og erlendis.

Forseti. Sem meðlimur Evrópuráðs þingsins sat ég fund stjórnarþingsins með Christian Åhlund, formanni Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi, til þess að ræða helstu áherslur og áskoranir nefndarinnar. Eins gafst okkur tækifæri til að ræða nýafstaðna eftirlitsferð nefndarinnar til Íslands og þá ómaklegu gagnrýni sem nefndin hefur sætt af hálfu Útvarps Sögu og talsmanna hennar þess efnis að nefndin hafi brotið á mannréttindum útvarpsstöðvarinnar. Formaðurinn var sammála þeirri sem hér stendur um að málfrelsi væri vissulega mikilvægur réttur en að útvarpsstöðvar nytu ekki mannréttinda.

Málfrelsi er mikilvægt og raunar óaðskiljanlegur hluti af lýðræðislegu samfélagi, en orðum fylgir ábyrgð og orðum fylgja afleiðingar. Við berum því ábyrgð á þeim orðum sem við notum til þess að lýsa fólki. Það er enda engin tilviljun að Evrópa, og Ísland þar á meðal, líti þögul undan á meðan þúsundir manna drukkna við strendur álfunnar. Við notum orðin til þess að réttlæta þessi voðaverk okkar. Við köllum þau hælisleitendur, við tölum um fólksflutninga, við köllum þau ólöglega innflytjendur, þótt aldrei dytti nokkrum manni í hug að kalla Evrópubúa sem flytja á milli landa nöfnum af þessum toga. Við réttlætum meðferðina á þeim, brottvísun í skjóli nætur, algjört skeytingarleysi okkar gagnvart afdrifum þeirra að brottvísun lokinni, með því að kalla umsóknir þeirra um vernd tilhæfulausar, með því að kalla þau hælisleitendur, með því að kalla þau flóttamannatúrista. En þær bera allar nöfn, þær manneskjur sem við komum svona fram við, þær heita Amír og Eze og Abdul Hamid, svo að tæmi séu tekin.(Forseti hringir.) Þessi dagur er tileinkaður þeim sem við kjósum að afmennska með orðum okkar byggðum á fordómum og hatri.