146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hinn 13. mars sl. óskaði fjárlaganefnd eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd veitti umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022. Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar frá 15. mars, tveimur dögum seinna, kemur fram, með leyfi forseta:

„Efnahags- og viðskiptanefnd hefur kynnt sér málið. Nefndin tekur ekki afstöðu til þess að sinni en hyggst í umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fjalla sérstaklega um þjóðhagsforsendur fjármálastefnunnar.“

Undir þetta rita Óli Björn Kárason, formaður, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason. Logi Einarsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið.

Í fundargerðum efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að nefndin ræddi umsagnarbeiðnina í fimm mínútur á fundi þann 14. mars. Í gær fékk ég þau skilaboð að það yrði fundur í fjárlaganefnd þar sem ætti að taka fjármálastefnuna úr nefnd og það var gert áður en þingfundur hófst. Mér þykir það miður að geta ekki tekið tillit til umsagnar þeirrar nefndar þingsins sem fer með efnahagsmál í nefndaráliti mínu um fjármálastefnu næstu fimm ára. Mér þykir það sérstaklega áhugavert að nefndin ætli að fjalla um þjóðhagsforsendur fjármálastefnunnar í umsögn sinni um fjármálaáætlunina. Þá er væntanlega búið að samþykkja fjármálastefnuna. Er ekki aðeins of seint að gefa umsögn þá, virðulegi forseti?

Samkvæmt þingskapalögum getur nefnd leitað umsagnar annarra nefnda um eitthvert mál, annaðhvort í heild sinni eða tiltekna hluta. Þar er sérstaklega tekið fram að umsagnir annarra nefnda skulu vera prentaðar með nefndaráliti um þingmálið. Ég velti því fyrir mér hvort þeir nefndarmenn sem skrifuðu undir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar hafi í rauninni ekkert að segja um það mál sem kemur til með að setja þann ramma um efnahagslegar forsendur til fimm ára sem fjármálaáætlun á svo að byggja á.