146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fátækt í íslensku samfélagi hefur verið til umræðu undanfarna daga og hefur sú umræða átt sér stað að þessu sinni og verið hvað fyrirferðarmest í fjölmiðlum. Umræða um fátækt og leiðir til að sporna við henni og afleiðingum hennar hefur hins vegar oft og iðulega átt sér stað hér í þingsal og verið rædd af flokkum sem kenna sig við jöfnuð og félagslegar áherslur. Flokkar á borð við VG hafa stöðugt bent á leiðir til þess að draga úr ójöfnuði í íslensku samfélagi og reynt að stuðla að því með öllum hætti að fátækt fyrirfinnist ekki í íslensku samfélagi.

Það eru nokkur atriði sem eru áberandi í nýjum könnunum um fátækt og sárafátækt, m.a. skýrsla sem birtist þann 13. september 2016 og var unnin fyrir Velferðarvaktina þar sem greindar voru upplýsingar um þá íbúa landsins sem búa við sárafátækt. Í þessari skýrslu kemur fram að erfið staða á húsnæðismarkaði er ein helsta breytan þegar kemur að því að fólk helst í fátæktargildrunni. Það er nú einu sinni svo, og mér finnst í raun og veru eins og ég sé að spila rispaða plötu, vegna þess að við höfum átt í þessum sal a.m.k. mikla umræðu um húsnæðismálin, að þau eru fyrirferðarmesti þátturinn þegar kemur að því að halda fólki í fátækt.

Ég vil líka benda á annan þátt sem við verðum að fara að tala um af einhverri alvöru, það er mismunur kynjanna þegar kemur að fátækt. Í nýrri könnun Gallups kemur fram að fjárhagur karla er almennt betri en kvenna, að nærri 13% kvenna ná ekki endum saman, á meðan það sama á við um rúmlega 8% karla, auk þess (Forseti hringir.) sem fleiri karlar ná að safna sparifé en konur.

Hér var verið að ræða áðan um jafnlaunavottunina og nauðsyn þess að taka til alvöruaðgerða til að sporna við launamisrétti. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja okkur öll til þess að taka þessa umræðu í víðara samhengi (Forseti hringir.) og uppræta fátækt í íslensku samhengi, líka milli kynjanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)