146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Næstkomandi mánudag munu hefjast viðræður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þess efnis að gera sáttmála sem bannar kjarnorkuvopn og gerir stöðu þeirra sambærilega því sem gildir um önnur gereyðingarvopn. Í febrúar síðastliðnum komu fulltrúar 101 ríkis saman til að undirbúa þessar viðræður. Ísland átti ekki fulltrúa á þeim fundi. Raunar er það mjög áberandi, þegar listinn yfir þátttökulöndin er skoðaður, að þar vantar meira og minna þær þjóðir sem eru aðilar að NATO.

Þetta segir auðvitað sína sögu um hernaðarbandalagið sem við erum aðilar að sem áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og virðist nú ætla að sniðganga viðræður um hvernig eigi að losa veröldina við þessa tegund vopna.

Mér finnst það dapurlegt ef Ísland — á tyllidögum eða þegar það hentar stæra ráðamenn sig af því að landið sé herlaust og þjóðin friðelskandi — verður ekki með. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að Ísland verði ekki með, t.d. vegna þess að á síðustu missirum hefur Ísland á vettvangi Sameinuðu þjóðanna greitt atkvæði gegn ályktunum um að kjarnorkuvopn verði bönnuð.

Þann 24. janúar síðastliðinn var útbýtt fyrirspurn frá mér til hæstv. utanríkisráðherra um hvort Ísland myndi taka þátt í þessum viðræðum. Ráðherra hefur ekki enn séð sér fært að svara henni á fyrirspurnardegi. Ég ætla samt að vona að þessi fyrirspurn komist á dagskrá næsta mánudag, (Forseti hringir.) sama dag og viðræðurnar hefjast, og þá muni koma í ljós að Ísland mun að sjálfsögðu taka þátt í umræðunum. Annað væri auðvitað ekkert annað en skandall.