146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Það er eiginlega synd að við séum að ræða þetta á grundvelli þingsályktunartillögu með jafn þröngan fókus og hér er, af því að þessi togstreita og umræða á milli okkar um það hvort eigi að skipa málum í gegnum ráðuneyti eða hafa eitt fljótandi Stjórnarráð sem ráðherrum er síðan skipað inn á þarf að eiga sér stað í þingsal. Það hefði verið miklu, miklu æskilegra að vera að ræða það heldur en hvort einn tiltekinn ráðherra fái rekstrarstjóra eða bara ráðuneytisstjóra til sín.

Af því að þingmaðurinn taldi upp hvað félli undir þennan háa kostnað sem kostnaðarmatið kvað á um, rekstrarstjóri, bókhald, upplýsingamál, þá er þetta náttúrlega allt saman stoðþjónusta sem ætti að vera vistuð á einum stað í Stjórnarráðinu. Það að vera með einn rekstrarstjóra í hverju ráðuneyti, það að vera með einn starfsmannastjóra í hverju ráðuneyti er ekki endilega besta ráðstöfunin á fjármunum. Það sem verra er, það getur gert þeim erfiðara að sinna starfi sínu vel. Starfsmannastjóri á 40 manna vinnustað t.d. á oft miklu erfiðara með að stíga inn í samskiptavanda á milli starfsmanna heldur en starfsmannastjóri á 500 manna vinnustað sem hefur mikla reynslu af erfiðum málum. Til að bæta starfsumhverfi þeirra sem vinna í Stjórnarráðinu held ég að það að ræða tillögu um breiðari nálgun á Stjórnarráðið hefði verið æskilegra. En eins og ég segi snýst þetta ekki um kerfið heldur um einn tiltekinn hæstv. ráðherrarass.