146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er í sjálfu sér ekkert á móti þessari breytingu á ráðuneytunum og hef í raun talað fyrir því að innanríkisráðuneytinu væri aftur skipt upp í tvö af því að þegar þetta var sameinað var það hreinlega ekki nægilega vel úr garði gert. Það hefur komið ítrekað fram að þáttur dómsmálaráðuneytisins hafi einhvern veginn fallið á milli. Mér finnst mjög mikilvægt að ein mikilvægasta burðarstoðin undir ráðuneytaskipan sé sterk og hafi óskorað umboð til að gera það sem gera þarf.

Aftur á móti er ég alveg sammála því sem hér hefur komið fram og finnst nauðsynlegt að við ræðum um hvernig kerfið okkar er rekið og að þeir sem fara með embætti ráðherra hverju sinni og halda utan um ráðuneyti sín vinni miklu nánar saman. Mér finnst allt í lagi að hrósa þegar vel er gert. Ég var á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun þar sem kom fram að verið er að gera mjög miklar og mikilvægar breytingar á ríkisráðsbúskapnum svo að segja og færa í nútímalegra horf. Þó svo að þetta mál sem við erum með hér til umfjöllunar líti út fyrir að vera fornfálegt og gamaldags eru mjög jákvæðir hlutir að eiga sér stað í því hvernig verið er að tryggja miklu meiri og nánari samvinnu á milli ráðuneyta og ráðherra. Það finnst mér mjög gott og góðs viti. Ég vil hrósa núverandi ríkisstjórn fyrir það.

Ég held að þetta sé ekki mál sem sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af. Mér skildist á hæstv. forsætisráðherra að það væri tryggt og ásetningur um að ekki yrði eytt um efni fram. Ég skora á þingmenn stjórnarmeirihlutans að passa upp á það. Það heyrir svolítið undir ykkur. En ég vonast til þess að farið verði eftir nýrri samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, samanber 9. reglu um starfshætti ríkisstjórnar. Ég hvet þingmenn til að kynna sér það plagg því að þar opnast möguleiki á miklu betri og nútímalegri aðferðafræði við það hvernig bæði frumvörp og samvinna ríkisstjórna mun ganga fyrir sig. Mér finnst það mikilvægt og þetta er í raun stjórnsýsluleg bylting. Best að segja það ekki of hátt þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins gætu heyrt það. En ég veit að þeir eru ekki allir miklir íhaldsmenn og sumir vilja sem betur fer breyta hlutum til nýrra tíma.

Það sem mér finnst heillandi er þessi nálgun. Við þurfum svolítið að þrýsta á þá nálgun að búnir séu til ráðherrahópar sem vinni náið saman að lagabreytingum, sér í lagi þegar er flæði á milli ráðuneyta með mál. Við höfum kynnst því á Alþingi og furðað okkur á af hverju í ósköpunum er ekki hægt að ná mikilvægum lagabreytingum í gegn. Þá kemur í ljós að það er einhver kastalarígur á milli ráðuneyta út af því að þetta snýst oft líka um fjármuni, þess vegna vilja menn halda í sína málaflokka. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við förum að huga að því að það ætti að vera möguleiki að flytja starfsfólk á milli ráðuneyta út frá málefnunum. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir hverja ríkisstjórn að taka sig til strax í upphafi og undirbúa það og leggja áherslu á hvernig eigi að vinna að stórum málum þannig að það sé gott flæði á milli ráðuneyta í staðinn fyrir að það sé alltaf barátta um peningana og hvaða ráðuneyti fær hvað í hvaða málaflokk. Mér skilst að ýmsar tillögur hafi verið lagðar fram og kynntar í forsætisráðuneytinu til þess að bæta vinnubrögðin og hjálpa til með þetta flæði.

Ég hef ekki rosalegar áhyggjur af þessari tilteknu breytingu. Ég veit ekkert hvort þetta sé til þess gert að einhver þingmaður geti verið ráðherra í kastala eða bara ráðherra utan um málaflokk sem er nauðsynlegt að sé haldið vel og þétt utan um. Ég hafði reyndar lagt til þegar þessi þingsályktunartillaga var fyrst kynnt að það yrði skoðað hvar Póst- og fjarskiptastofnun hefði sitt heimili og lagði til að hún yrði flutt í nýsköpunaráðuneyti. Ég veit ekki hvort það verður gert á einhverjum punkti eða ekki en ég tel það æskilegt, einfaldlega út af breyttu hlutverki á nýjum tímum. Það er mjög margt sem heyrir undir Póst- og fjarskiptastofnun sem tengist í raun og veru ekki beint gamaldags skilgreiningu á hlutverki þeirrar stofnunar. Ég held að það væri mjög nauðsynlegt að færa það á réttan stað. Það er jafnvel spurning hvort stofnunin ætti betur heima undir dómsmálaráðuneytinu. Við erum að tala um mjög viðamiklar breytingar sem við munum fjalla um er lúta að friðhelgi einkalífs út frá nýjum og breyttum áformum hjá Evrópuráðinu um að gera skurk í þeim málum. Það ætti tæknilega séð að heyra undir dómsmálaráðuneytið frekar en samgönguráðuneytið. Ef það mál fer inn í samgönguráðuneytið óttast ég kannski að þekking verði ekki til staðar. En ef svo ber undir að það fari þangað vonast ég til að fólk sé flutt á milli og flæði vel.

Það er óþolandi að hafa orðið vitni að því ítrekað að í staðinn fyrir að vinna saman að þeim meginþráðum sem hver ríkisstjórn ætlar sér að gera þá eru rosalega miklar fyrirstöður út af því sem ég kalla kastalahús, það séu sett síki á milli í staðinn fyrir að fólk geti hjálpast að við að koma því áfram sem ríkisstjórn ætlar sér að gera. Mér er alveg sama hvaða ríkisstjórn er við völd, hvort sem mér hugnast sú stefna eða ekki, aðhaldið og eftirlitið á heima hér á Alþingi. Það er óþolandi þegar maður horfir upp á að það að ekki sé hægt að ýta málum áfram út af tregðu við að geta samnýtt starfsmenn. Ég er alveg viss um og hef heyrt innan úr stjórnsýslunni að það er mikill áhugi hjá mörgum starfsmönnum á að fá að nýta hæfileika sína í meira mæli. Það er svolítið furðulegt til þess að hugsa að sums staðar eins og ég komst einhvern tíma að, t.d. í menntamálaráðuneytinu, voru bara einn eða tveir lögfræðingar til að vinna að lagasetningu á þeim tíma. Þá þarf að fara að kaupa vinnu utan úr bæ frá lögfræðistofum. Stundum hefur þurft að gera það í ýmsum ráðuneytum. Mér finnst það ekki endilega vera skynsamlegt. Þá glatast mikilvæg stofnanaþekking. Þá glatast möguleikinn á að nýta fólk sem er fyrir.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt, fyrst við erum að tala um ráðuneyti, að benda á þennan ósýnilega glervegg sem virðist vera víða. Góðir embættismenn, fólk sem hefur lagt mikið á sig til að geta verið frábærir embættismenn, virðast ekki komast áfram í efsta lagið. Það er alþekkt að pólitíkin ráði oft þar för. Ég er ekki að segja að það sé algilt en þetta er altalað. Mér finnst allt í lagi að ræða um það hér. Það þarf að fara að taka á því. Ég vonast til þess að þessum breytingum verði fylgt eftir í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. mars og farið verði eftir því. Auðvitað þarf að taka þetta í skrefum en ég vil bara hvetja ríkisstjórnina til dáða.

Fyrst við erum að tala um ráðuneyti og að auknu fé verði varið til að taka þetta stóra ráðuneyti í sundur vil ég líka skora á þingmenn að þrýsta á að við fáum hér í fasta stöðu sérfræðing í stjórnskipan sem þingmenn geta leitað til. Það er óþolandi að það sé alltaf verið að kalla eftir álitum frá sömu aðilunum sem fá ekki greitt fyrir það og hefur komið álit korteri fyrir nefndarálit eða eitthvað slíkt. Ég held að við eigum bara að standa fastar á því, slá upp smá kastaladíki í kringum Alþingi og reyna að ná í meira fé þannig að við getum haft fleiri sérfræðinga við lagasetningu og greiningu á lagasetningu þannig að við getum verið alvörueftirlitsvald með framkvæmdarvaldinu. Það hafa orðið miklar breytingar eftir hrun. Mér finnst í sjálfu sér, ef ég horfi heildrænt á það sem er verið að reyna að gera núna, að við séum í raun að fara aðeins fram á við. Ég get ómögulega gagnrýnt ríkisstjórnina í þessu máli svo framarlega sem hún ætlar sér að framfylgja þessari nýju samþykkt. Það er ýmislegt annað sem ég get gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir, en ekki endilega í þessu máli. Mér finnst mjög mikilvægt að við þingmenn, hvar í flokki sem við stöndum, styðjum það sem vel er gert og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva það sem er ómögulegt eða hægja á því og koma því inn í umræðuna. Vil ég nota tækifærið fyrst ég er hérna og hvetja þingmenn til að leggja við hlustir ef fólk andmælir því hvernig við högum okkar störfum. Á það sérstaklega við um þingmenn meiri hlutans.

Í þessu tilfelli ætla ég að hvetja okkur öll til að veita því aðhald að þessi breyting verði ekki til þess að það verði eytt um efni fram í eitthvað sem er ekki nauðsyn. En ég fagna því að þessi tvö ráðuneyti séu aðskilin. Mér fannst framkvæmdin á því þegar búið var til þetta stóra ráðuneyti ekki heppnast fullkomlega og hef verið talsmaður þess að dómsmálaráðuneytið verði aftur sér ráðuneyti.

Auðvitað finnst öllum sem horfa upp á þessar sífelldu breytingar á ráðuneytum þetta harla furðulegt. En við þingmenn mættum kannski leyfa okkur að taka völdin aðeins í eigin hendur og skipa fastanefnd sem héti framtíðarnefndin þar sem við gætum farið á þverpólitískan hátt í stefnuvinnu og greint langtímaáætlanir í stórum stefnumálum eins og t.d. heilbrigðismálum, ástandi innviða í tölvumálum og hugbúnaðar þegar kemur að opinbera kerfinu og langtímaáætlunum um hvernig við ætlum að framfylgja Parísarsáttmálanum. Eina leiðin til að ná fram stöðugum breytingum sem ekki er verið að hræra með á milli kjörtímabila er að við vinnum öll saman að því. Mér finnst þessar tilraunir þingsins til að vera sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu mjög skringilegar eins og þegar nefndunum var breytt. Ég get ekki séð að það hafi breytt neinu þegar nefndirnar urðu skyndilega risastórar og með málaflokka sem eiga ekkert sameiginlegt eins og allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta er bara rugl að setja þessa rosalega ólíku málaflokka saman. Svo virðist það vera þannig líka, og mér finnst að við þingmenn sem erum gagnrýnin ættum að hafa í huga, að það er viðloðandi þennan vinnustað að ef gerðar eru breytingar er eins og það megi ekki breyta til baka ef það kemur í ljós að þetta er eitthvert rugl. Ég skora á okkur að líta í eigin barm líka.