146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ef þingmenn hefðu einhvern dug myndu þeir tryggja að forgangurinn væri hér en ekki alltaf hjá framkvæmdarvaldinu. Það er athyglisvert þegar verið er að breyta framkvæmd fjárlaga og setja fjármálastefnu til fimm ára að hvert einasta ráðuneyti fær sérfræðing til þess að innleiða stefnuna en Alþingi fær engan. Það er ýmislegt sem ég myndi vilja laga þar.

Ég veit það náttúrlega alveg að þetta snýst um fjölda ráðherra. Það er bara þannig. En þessi stóll er hvort eð er til, hvort það eru tvö ráðuneyti, hvort ráðuneyti eru aðskilin eða ekki, spurningin snýst svolítið um það. Mér finnst í sannleika sagt mikilvægt að skipta upp þessum tveimur ráðuneytum. En hvort það er forgangsmál er síðan allt önnur Ella og hvort horfa eigi á þessi mál á heildrænan hátt er síðan allt annað. Auðvitað mundi ég vilja sjá það. Mér finnst við oft taka allt í bútum og svo einhvern veginn heppnast það aldrei almennilega af því að það er ekki gert á heildrænan hátt. Við eigum að búa til framtíðarnefnd af því að þetta er ekki gert á heildrænan hátt þannig að hugmyndin um breytingar lifi á milli kjörtímabili eða á milli áratuga. Við þurfum að vera með einhverja langtímasýn, en það virðist vera mjög erfitt fyrir alla, ekki bara þingmenn eða ráðherra eða stjórnmálaflokka. Það er vandamál sem nútímamaðurinn á við etja, að geta hugsað til langtíma.

En ég er alltaf til í að taka slaginn fyrir Alþingi. Alltaf. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé það líka.