146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið frá því sem orðið er. Það eru þó margar freistingar í þessu máli sem erfitt er að standast, þar á meðal sú að hér séu talsmenn þess að báknið minnki og helst hverfi burt, þeir sem flytja málið og vilja blása enn meira í það í útþenslu með fjölgun ráðuneyta, fjölgun ráðherra og aukins kostnaðar í rekstur á bákninu svokallaða.

Oft á tíðum hafa verið haldnar miklar ræður, bæði í þingi og utan þings, af flokksmönnum hæstv. forsætisráðherra, sem er flutningsmaður þessarar tillögu, og af aðilum á vinnumarkaðnum og aðilum tengdum stjórnarflokkunum um að nauðsynlegt sé að auðvelda kerfið sem mest, það eigi að vera skýrt og það eigi ekki að vera yfir marga þröskulda að klífa þegar kemur að Stjórnarráðinu og stjórnsýslunni almennt. Í kjölfarið er iðulega lagt til að stofnunum sé fækkað eða ríkisstofnanir seldar og það sé losað aðeins um þetta þannig að allt sé aðgengilegt fyrir þann hóp að valsa um í stjórnkerfinu. Hér er sem sagt farin önnur leið, þ.e. að bæta í báknið, þenja það út, bæta við, auka kostnað, fjölga ráðuneytum og auka umfangið allt saman og fjölga starfsfólk að auki. Þetta er samt ekki alveg nýtt.

Í umræðum sem urðu í þingi um sambærileg mál í kjölfar hrunsins á kjörtímabilinu 2009–2013 fórum við að fylgja ráðum í rannsóknarskýrslu Alþingis og tillögu sérstakrar þingmannanefndar sem var skipuð í kjölfarið, m.a. um endurskipulag á stjórnsýslunni, stjórnkerfinu, Stjórnarráðinu, stofnanakerfinu og fleiri slíkum, fetuðum okkur inn á þær brautir. Ég nefni sem dæmi sameiningar stofnana sem tóku óratíma. Það tók tvö til þrjú ár að sameina litlar stofnanir, rannsóknarstofnanir eins og slysarannsóknir á sjó, landi og í flugi, vegna gríðarlegrar fyrirstöðu, ekki síst í þessum þingsal, gegn því að hagrætt yrði í ríkisrekstri, stofnanir yrðu gerðar skilvirkari og að sérfræðiþekking yrði þjöppuð betur saman á einn stað. Ég nefni aðrar sameiningar sem ráðist var í á því tímabili, þ.e. þegar Siglingastofnun, Umferðarstofa og Vegagerðin voru sameinaðar í eina stofnun sem heitir í dag Samgöngustofa. Það tók óratíma, sem var í sjálfu sér allt í lagi. Allt svona þarfnast umræðu. Það þarf að fara í gegnum nokkur lög af umræðu til að komast að niðurstöðu. En í hverju einasta máli lögðust talsmenn þess að minnka báknið og helst að láta það hverfa gegn öllum þeim málum sem þarna voru, hverju einasta máli.

Það hefur oft vakið athygli mína og spurningu um hugmyndafræðina í reynd og hugmyndafræðina á borði, vegna þess að í því sem var gert á þeim tíma með sameiningu stofnana, fækkun ráðuneyta og fækkun ráðherra í ríkisstjórn var verið að fylgja ákveðnum leiðbeiningum. Það var verið að fylgja ákveðnum leiðbeiningum, eins og voru nefndar áðan, út úr hruninu í gegnum rannsóknarskýrslu Alþingis, í gegnum þingmannanefndina, í gegnum tillögur sérfræðinga úti í samfélaginu. Það var allt byggt á þeim rökum, ekki vegna þess að einhvern langaði til að gera það sérstaklega heldur vegna þess að það var gert með rökum. Það voru rökfastar og góðar ástæður sem lágu þar að baki.

Það er gaman að lesa þær umræður í dag sem áttu sér stað t.d. við fækkun ráðherra úr tólf í átta á sínum tíma, sem var samþykkt held ég vorið 2012. Þá var ráðherrum í ríkisstjórninni fækkað um tólf í átta. Ég get upplýst það að ég vildi ganga lengra. Ég vildi fækka þeim í sex. Í ríflega 300 þúsund manna samfélagi finnst mér nóg að vera með sex ráðherra, alveg yfirdrifið nóg, og vera með öflug ráðuneyti. Undir ráðherra gætu síðan heyrt annaðhvort fleiri aðstoðarmenn eða aðstoðarráðherrar eftir því sem verkast vill, en að þetta sé einfaldað og gert betra en var fyrir hrun þegar ráðuneyti fóru upp í sextán eða átján niður í það sem var, átta. Ég hefði viljað prófa að ganga lengra í þá átt að fækka ráðherrum og ráðuneytum og finna aðrar leiðir undir þeim til að nýta valdið sem best.

Á þeim tíma höfðu sérstaklega Sjálfstæðismenn miklar áhyggjur af því að verið væri að hræra í Stjórnarráðinu þeirra og fækka ráðuneytum og fundu fyrir því ýmis skemmtileg rök, eins og lesa má í umræðum frá þessum tíma.

Með leyfi forseta, vitna ég í ræðu Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi þingflokksformanns, ef ég veit rétt, þar sem hann fjallar einmitt um fækkun á ráðuneytum, sameiningu á ráðuneytum og fækkun á ráðuneytum úr tólf í átta. Áhyggjuefni hans var eftirfarandi, og er hann þá að fjalla um sameiningu á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu yfir í atvinnuvegaráðuneyti:

„Það má segja að mikið ofurmenni þurfi til að gegna þessum embættum ef viðkomandi á að hafa sómasamlega yfirsýn og tök á öllum þessum málum. […] Ég verð að játa að ég hef áhyggjur af þessu og ég held að þetta séu ótvírætt gallar.“

Svo virtist sem skortur væri á ofurmennum. Það þurfti sérstakt ofurmenni, pólitískt ofurmenni til að sinna störfum í sameinuðu ráðuneyti atvinnuvegamála og öðrum ráðuneytum sem þá var verið að sameina. Kannski er ástæðan fyrir því að verið er að rífa þetta í sundur aftur að það eru ekki í þessu liði þau ofurmenni sem geta stjórnað slíku ráðuneyti, þótt ég leyfi mér að efast um það því að það á ekki að vera mjög erfitt mál. Öflugur stjórnmálamaður, öflugur ráðherra á að hafa mjög góða sýn yfir ráðuneyti sín jafnvel þótt þau séu af þeirri stærð sem um ræðir, þ.e. innanríkisráðuneytið.

Þegar lesið er yfir tillöguna sjálfa og reynt að athuga hvað býr að baki, til hvers tillagan er raunverulega lögð fram, hver ástæðan sé fyrir því að lagt er upp með breytingar — og það er gott að spyrja sjálfan sig alltaf að því þegar kemur fram lagafrumvarp eða þingsályktunartillaga um breytingar hvers vegna verið sé að breyta, hverju þurfi að breyta, hver ástæðan sé fyrir því, það er ágætisregla fyrir alla að byrja á að spyrja þeirra spurninga — þá verða svörin dálítið óskýr. Það er ekki mikil röksemdafærsla fyrir því, efnisleg röksemdafærsla fyrir því að lagt er upp með þessar breytingar.

Það er vitnað til hefða í þingsályktunartillögunni sjálfri, að það sé söguleg hefð fyrir sérstökum dómsmálaráðuneytum og sagan rakin alveg aftur til ársins 1904 og 1917 þegar fyrsta dómsmálaráðuneytið var stofnað og hægt að vísa til þess að svona ráðuneyti hafi alltaf verið til og svona skuli alltaf vera til, dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Þetta eru auðvitað ekki rök sem halda því að lífið tekur allt breytingum og allt er breytingum háð, allt þróast einhvern veginn áfram. Hefðirnar mega ekki vera til þess að læsa okkur innan veggja og ramma sem við komumst ekki út úr, heldur þvert á móti verðum við alltaf að horfa til þess að reyna að bæta og laga samfélagið með öllu því sem við gerum.

Síðan segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Með því að skipta innanríkisráðuneytinu að nýju upp í tvö ráðuneyti má tryggja markvissari forystu í málaflokkum hvors ráðuneytis um sig og gera ráðuneytunum þannig betur fært að sinna þeim umfangsmiklu lögbundnu verkefnum sem nú heyra undir innanríkisráðuneytið. […] Síðast en ekki síst ætti að nást betri yfirsýn yfir þá málaflokka sem undir hlutaðeigandi ráðherra og ráðuneyti þeirra heyra sem einfaldar þeim að annast skyldur sem á þeim hvíla …“

Ég fékk það á tilfinninguna þegar ég las þennan kafla að ráðuneytin væru í steik, að ástæðan fyrir þessu væri sú að ráðherra sem þarna hefði verið hefði einfaldlega ekki ráðið við verkefnið, það hefði verið of umfangsmikið. Vandinn hlýtur að felast í þeim rökum, þ.e. ástæðan fyrir því að skipta þessum ráðuneytum upp, meginsjónarmiðið að baki breytingunni, eins og kaflinn heitir, er að það hafi hreinlega allt verið í steik í ráðuneytinu. Vissulega var það þannig um tíma. Innanríkisráðuneytið var um tíma lamað vegna pólitískrar spillingar sem endaði með því að ráðherra varð að segja af sér. Menn fundu fyrir því í þinginu og þingstörfum, menn fundu fyrir því í afgreiðslum í ráðuneytinu og vinnunni sem þar fór fram, almenningur og þeir sem þurftu á þjónustu ráðuneytisins að halda fundu fyrir því sömuleiðis. Kannski er ástæðan að ráðuneytið sé hreinlega það illa leikið eftir þetta tímabil að hreinlega þurfi að skipta því upp, það verði ekki bætt öðruvísi. En meginsjónarmið að baki breytingunni eru að það hafi ekki verið nægilega markviss forysta í málaflokki hvors ráðuneytis fyrir sig, það stendur skýrum stöfum í tillögunni, og að yfirsýn ráðherra yfir þau verkefni sem hann átti að fara með hafi ekki verið nógu góð. Þetta er að sjálfsögðu harður dómur yfir þeim sem þar voru og hæstv. forsætisráðherra færir það fram sem meginsjónarmiðið að baki þeim breytingum sem hann leggur hér til, að skipta ráðuneytunum upp.

Það er síðan vitnað til þess sem ég nefndi áðan með fækkun ráðuneyta og ráðherra á árinu 2012, sem voru færð ágæt rök fyrir, það var tekið skref fyrir skref í þeim málum, byggt á gögnum og aðstæðum sem komu upp í samfélaginu. Það segir í 4. kafla þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra að rökin að baki sameiningunni 2012 hafi m.a. verið viðleitni þáverandi stjórnvalda til að hagræða í ríkisrekstri í kjölfar efnahagshrunsins og hafi öðru fremur verið horft til hagræðingar og mögulega samlegðar í stoðþjónustu ráðuneyta, enda þótt verkefnaleg samlegð hefði ekki, eins og rakið hefur verið hér að framan, fengist með sameiningunni.

Hvar er það rakið í þessari tillögu? Það er ein setning í tillögunni um samlegðaráhrif sem er aðeins skoðun ráðherra. Það segir, með leyfi forseta:

„Samlegðaráhrif verkefna ráðuneytanna voru þó hverfandi ef frá er talin samlegð á sviði stoðþjónustu.“

Þetta er eina umfjöllunin sem vísað er til í 4. kafla í tillögunni um samlegðaráhrif sem urðu af sameiningunni. Það eru engin rök færð fyrir þeim orðum heldur er þetta einfaldlega skoðun ráðherra eða einhvers sem skrifar fyrir hann þessa tillögu, án þess að færð séu nokkur efnisleg rök fyrir því.

Það er rétt að hluti af því sem var gert árið 2012 var auðvitað að auka hagræðið í ríkisrekstri. Það tókst að flestu leyti til, en meginrökin voru þau að gera ráðuneyti og stofnanir skilvirkari og ábyrgari en þau höfðu verið áratugina þar á undan. Það var rauði þráðurinn í niðurstöðu rannsóknarskýrslu Alþingis á hruninu að stofnanir og ráðuneytin væru veik, þau væru vanmáttug, hálfmáttlaus til að takast á við aðstæður sem þá komu upp, of mörg, of fá og of vanmönnuð.

Nú er sem sagt verið að fara til baka, vegna þess að þeir sem stýrðu þessu ráðuneyti, í það minnsta að mati forsætisráðherra, höfðu ekki yfirsýn né trygga markvissa forystu í þeim málaflokkum sem heyrðu undir ráðuneytin. Það er dómur forsætisráðherra í tillögunni yfir þeim samflokksmönnum hans sem gegndu ráðherraembætti í innanríkisráðuneytinu.

Uppskipting innanríkisráðuneytisins, segir í sama kafla í tillögunni, hefur óhjákvæmilega í för með sér rekstrarlegan aðskilnað sem kann í einhverjum tilfellum að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Þetta er kostnaðarmatið á tillögunni í einhverjum tilvikum, ekki tilgreindum tilvikum, heldur að í einhverjum tilvikum kunni það að gerast að það fylgi því aukinn rekstrarkostnaður. Þetta er auðvitað ekki boðlegt kostnaðarmat af hálfu forsætisráðherra fylgjandi tillögu af þessu tagi, að það kunni hugsanlega eitthvað að gerast en jafnvel ekki, kannski þó.

Nefndin sem fjallar um þetta mál kallaði eftir kostnaðarmati þar sem kemur fram að árlegur kostnaður sé um 120 millj. kr. eða upp undir hálfur milljarður á kjörtímabilinu ef svo illa skyldi fara að þessi ríkisstjórn héldi það út. Það er hálfur milljarður sem þetta kostar. Hvernig bregst meiri hluti nefndarinnar við? Hann hafnar kostnaðarmatinu. Hann segir bara: Þetta er ekki rétt. Við viljum ekki trúa því að þetta sé svona. Meiri hlutinn leggur áherslu á að með samþykkt þingsályktunartillögunnar sé ekki verið að samþykkja frekari útgjöld á aukningu vegna uppskiptingarinnar, þrátt fyrir það að kostnaðaráætlun sem kallað er eftir hljóði upp á að kostnaðurinn sé 120 milljónir á ári. Þetta er fyrir utan annan kostnað sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í við fjölgun ráðuneyta og ráðherra.

Líkast til má telja þær breytingar sem orðið hafa frá áramótum í stjórnskipun landsins, þ.e. varðandi skipan mála í Stjórnarráðinu, hlaupi á milljörðum á kjörtímabilinu. Það kostar okkur milljarða á kjörtímabilinu, þessi breyting ein og sér kostar hálfan milljarð og það að fjölga ráðherrum úr átta, um einn á ári, einn í þetta skiptið, þetta hleypur á milljörðum á einu kjörtímabili, þær breytingar sem ríkisstjórnin er að ráðast í, ofan í það sem áður hefur verið gert. Þetta er auðvitað ekki boðlegt að neinu mati og undirstrikar það enn frekar sem áður hefur komið fram að tilgangurinn er ekki að hagræða í ríkisrekstri, er ekki að gera ráðuneyti skilvirk, heldur er raunverulegur tilgangur að viðhalda pólitísku valdajafnvægi í ríkisstjórninni. Það er lexía sem við höfum áður fengið í hausinn og oft hefur verið gripið til af þessum flokkum, alla vega báðum sjálfstæðisflokkunum, í samstarfi við aðra flokka, að viðhalda jafnvægi í ríkisstjórninni, að nauðsynlegt sé að það sé pólitískt jafnvægi og þá er greitt fyrir það. Í þessu tilfelli kostar það a.m.k. hálfan milljarð. Það kostar a.m.k. hálfan milljarð að uppfylla kröfu Sjálfstæðisflokksins í þessu tilfelli, að fá einn ráðherra í viðbót og eitt ráðuneyti og koma í veg fyrir að ráðherrar sama flokks þurfi að blanda mikið geði hvor við annan og sitt starfsfólk, heldur hafi hver sinn reit sem þeir geta helgað sér í ráðuneyti sínu og séu algjörlega sjálfstæðir þar.

Það er gott að hafa í huga núna þegar þetta mál er rætt hvaða raunverulega ástæða er að baki hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarliðinu og flutningsmanni nefndarálitsins hér, talsmanni ríkisstjórnarinnar í þessu máli í þinginu sem á að blása lífi í báknið, þenja það út.

Það er engin vissa, öryggi né trygging flutt fram í máli, hvorki ráðherra né í nefndaráliti, heldur er talað um að tryggja megi sjálfstæði, markvissari forystu í málaflokknum, ekki það að með aðgerðunum sé það tryggt heldur að það geti kannski gert það, það verða kannski aukin útgjöld, kannski ekki, og þegar það liggur fyrir kostnaðarmat sem nefndin fær er því hafnað.

Virðulegi forseti. Ég spyr að lokum um þá gesti sem nefndin boðaði til sem koma úr Stjórnarráðinu, þ.e. úr tveimur ráðuneytum. Var ekki kallað eftir áliti annarra, t.d. stjórnsýslufræðinga, t.d. þeirra sem komu nálægt rannsóknarskýrslu Alþingis? Var ekki kallað eftir rökum sem fyrir lágu þegar ráðuneytin voru sameinuð á sínum tíma og fækkað? Hvað lá þar að baki? Af hverju er ekki kallað eftir áliti fleiri en málið varðar með beinum hætti beint inn úr ráðuneytunum, með fullri virðingu fyrir þeim? Af hverju er ekki leitað álits sérfróðra aðila (Forseti hringir.) í þessu máli? Af hverju er ekki reynt að rýna í þau rök sem lágu fyrir þegar ráðuneytin voru sameinuð á sínum tíma?