146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Tíðarandinn tekur sífelldum breytingum og hann er ekki bundinn við rannsóknarskýrslu. Tímarnir breytast þrátt fyrir rannsóknarskýrslu. Það vill nú svo til að sá sem hér stendur var ekki í pólitík á þeim tíma þannig að ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki lesið þessa skýrslu spjaldanna á milli þannig að ég get nú varla verið búinn að skipta um skoðun á henni. Hins vegar hef ég talsverða reynslu úr stjórnun af ýmsu tagi og af skipuheildum, þær taka oft breytingum. Það koma fram nýjar kenningar, það koma fram hlutir sem menn sjá að þeir geta gert betur en áður. Ég held að það hljóti að geta átt við okkur óháð rannsóknarskýrslunni. Ég er ekki að gera lítið úr henni, alls ekki. Ég er bara að segja það að tíðarandi, eins og orðið ber með sér, er andi tímans.

Hv. þingmaður minntist á að ég hefði sagt að kostnaðarmatið hefði verið rangt. Það var í sjálfu sér ekki rangt miðað við upphaflegar hugmyndir sem settar voru fram um hvað breytingin hefði í för með sér, hins vegar er alveg ljóst að í því sem var lagt fyrir okkur voru hugmyndir sem voru langt umfram það sem nauðsynlegt var til þess að ná fram því sem um var rætt. Hæstv. forsætisráðherra ítrekaði hér í andsvari sínu við fyrirspurn frá hv. samþingmanni okkar, Svandísi Svavarsdóttur, og tók mjög skýrt af skarið um að þetta ætti að vera innan þeirra kostnaðarmarka sem rekstur ráðuneytisins sameinaðs núna kostar að viðbættum hugsanlega tveimur starfsmönnum.