146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

Þjóðhagsstofnun.

199. mál
[16:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að tjá mig um þetta mál. Mér finnst það afar brýnt, ekki síst vegna þess sem við sem tjáum okkur um þetta mál erum að fást við ríkisfjármála- eða stefnuáætlun. Þetta tónar vel við þá vinnu og það sem þar hefur komið fram. Ég er nú búin að vera að fletta aðeins í gömlum blöðum í dag og fann ég greinar frá því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, síðan 2002. Ég ætla að fá að vitna aðeins í það sem fram kemur hjá einum hagfræðingi, Katrínu Ólafsdóttur, sem þá var starfandi á Þjóðhagsstofnun og var formaður starfsmannafélagsins. Það er upplifun mín sem þingmanns í fjárlaganefnd sem þar kemur fram. Okkur ber mörgum saman um það sem þar höfum verið að það vanti tilfinnanlega að styrkja þingið með einhvers konar óháðri stofnun. Hún segir, með leyfi forseta:

„Þjóðhagsstofnun hefur mikla sérstöðu í efnahagsumhverfinu sem óháð sérfræðistofnun sem nýtur trausts og álits og talin vinna faglega að þeim málum sem henni hafa verið falin. Þá nýtur stofnunin trúnaðar atvinnurekenda jafnt og verkalýðshreyfingar. Henni hafa verið falin ýmis verkefni af ráðuneytum og þingmönnum sem leitað hafa til sérfræðinga stofnunarinnar. Þjóðhagsstofnun tryggir því greiðan aðgang þingmanna allra flokka, aðila vinnumarkaðarins og alls almennings að áreiðanlegum upplýsingum um framgang efnahagsmála og er þessi starfsemi tryggð í lögum um stofnunina. Verði stofnunin lögð niður verður ekki til sjálfstæð stofnun sem fjallar um efnahagsmál.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Það er sjálfsögð krafa að gerð sé óháð efnahagsspá sem aðhald við spár hagstjórnaraðila eins og fjármálaráðuneytis. […] Ekki hafa verið lögð fram nein rök fyrir því að lokun Þjóðhagsstofnunar leiði til hagræðingar.“

Mér fannst sérstaklega gott þetta næstsíðasta, þ.e. „að gerð sé óháð efnahagsspá sem aðhald við spár hagstjórnaraðila eins og fjármálaráðuneytis“, sem fjármálaráðið núna tekur undir, eins og framsögumaður kom inn á og kemur fram í áliti með frumvarpinu. Þá segir líka í áliti fjármálaráðs á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Það er viðbúið að ónákvæmni sé í þjóðhagsspám vegna galla í líkönum, skekkju í gögnum og vegna óvissunnar sem til staðar. Af því leiðir að það getur skapað vanda að miða áætlanagerð og stefnu um of á grundvelli einnar spár án þess að hugað sé að möguleikum á annarri atburðarás.“

Þetta er eitt af því sem við þurfum svo sannarlega á að halda, þ.e. að það séu fleiri en ein spá undir, því að eins og hér hefur komið fram þá eru frávik í þjóðhagsspá Hagstofunnar varðandi fjármálastefnuna, sem munar töluvert miklu. Á erlendum vettvangi telst það vera afar mikið. Hér segir síðar í álitsgerð fjármálaráðsins á stefnunni, með leyfi forseta:

„Ekki liggja heldur fyrir nægilega traustar upplýsingar um skuldaþróun en grófir útreikningar fjármálaráðs, byggðir á gögnum úr Fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og þjóðhagsspá Hagstofu, benda til halla á árunum 2017 og 2018 …“ o.s.frv.

Undirliggjandi í þessari álitsgerð, sem vegur þungt og á að vera óháð, er að þar vantar betri greiningargögn til að styðjast við og gera þetta enn þá betur úr garði. Hér kemur fram að hagvöxturinn lækkaði töluvert mikið á milli 2016 og það sem áætlað er fyrir 2017, þannig að það er minna áreiðanlegt en ella.

Til gamans má segja frá því að þegar verið var að ræða þetta mál á þingi á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja niður Þjóðhagsstofnun, í apríl 2002, sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að ekki lægju fyrir nein efnahagsleg rök sem mæltu með frumvarpinu. Þáverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, Sverrir Hermannsson, sagði að með því að færa verkefni Þjóðhagsstofnunar til fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands væri greinilega verið að færa þau nær valdhöfunum, ríkisvaldinu sjálfu. Það er kannski það sem við höfum verið að gagnrýna. Talað var um hagræðingu og sparnað til lengri tíma litið. Rétt áðan vorum við að fjalla um breytingu á Stjórnarráðinu, sem kostar töluverða peninga og mun kosta meiri peninga, að mínu mati. Eins og dæmin hafa sannað í gegnum árin hefur það verið því miður þannig.

Ég held að um leið og við ákveðum á einum tíma að víkka út ráðuneytin getum við ekki búið til skilvirkt utanumhald utan um efnahagsmálin þannig að óháð sé til þess að styrkja þingið um leið og við tökum upp þessi nýju opinberu fjármál, lögin sem margir vona til að verði fljótlega, að minnsta kosti á endanum, þannig að við getum verið sem flest sæmilega sátt við þau og að þau skili því sem þau eiga að skila. En til þess þarf að ríkja trúnaður. Það þarf að ríkja ákveðið traust um upplýsingar og að þingmenn geti fengið óháðar upplýsingar, ekki bara upplýsingar úr ráðuneytinu — við getum auðvitað fengið ákveðnar upplýsingar hjá Seðlabankanum svo framarlega sem þær koma ekki inn á lögin um hann, en hann getur auðvitað ekki látið okkur allar upplýsingar í té. Ákveðnar greiningar getum við jú fengið hjá Hagstofunni. En þarna yrði til sá aðili sem héldi alfarið utan um þessi mál.

Ég verð að taka undir það að sjálfstæð og óháð stofnun sem verður með greiningu á hagstjórninni í efnahags- og atvinnulífinu — því að þó að Viðskiptaráð eða aðrar stofnanir, greiningardeildir bankanna o.s.frv. geri eitthvað slíkt þá eru þau auðvitað hagsmunaaðilar. Við getum ekki labbað inn í banka og beðið um einhverjar greiningar, upplýsingar sem snúa að þessum málum. Í greinargerðinni segir að samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga sé starfrækt á grundvelli samstarfssáttmála sem afla eigi gagna um stöðu efnahagsmála og þróun fjármála ríkisins og skili svo greinargerð um efnahagsmálin. Nú liggur fyrir að samkomulag hefur ekki náðst milli ríkis og sveitarfélaga varðandi fjármálastefnu ríkisins og sveitarfélaga, vegna þess að það fer jú saman. Það þýðir að við göngum á svig við stefnuna strax í fyrsta sinn sem við förum almennilega eftir henni frá upphafi til enda. Það er grafalvarlegt mál. Ég held að ef við hefðum fengið, ég veit ekki hvort ég á að segja þriðja aðila því að þeir eru kannski fleiri, en ef við hefðum fengið stofnun af þessu tagi til þess að styðja við stefnuna, styðja við ákveðna útreikninga og hugsanlega til að hjálpa aðilum til að ná saman um þessi mál, værum við stödd annars staðar.

Þó að ég hafi efasemdir um að þetta frumvarp nái fram að ganga vona ég að það geri það. Það vekur okkur til umhugsunar í því ferli sem við erum að ganga inn í núna varðandi lög um opinber fjármál og málsmeðferðina sem fram undan er. Við munum ræða ríkisfjármálastefnuna fljótlega. Síðan kemur áætlunin í framhaldinu. Það hefur löngu komið fram að þingið er ekki tilbúið að takast á við það verkefni. Þingmenn vantar tilfinnanlega aðstoð til þess að geta sinnt því starfi sómasamlega. Ef við eigum að viða að okkur einhverjum slíkum upplýsingum þurfum við betri aðgang.