146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef bara nákvæmlega engar áhyggjur af því. Við þingmenn höfum, ólíkt því þegar þingsköp voru ákveðin varðandi líftíma þingmála, alveg ótrúlega mikið aðgengi að fjölmiðlum, almenningi, að því að vekja athygli á því ef eitthvað er svæft í nefnd. Það er bara þannig að nú eru mál svæfð. Ítrekað. Fullt af málum.

Ég trúi því ekki að við ætlum að fara að láta slíkar áhyggjur verða til þess að við tökum ekki á stóru breytingunum sem þetta myndi hafa í för með sér. Þetta hefði til dæmis í för með sér að mjög mikið af þessum EES-reglugerðum sem eru endurfluttar aftur og aftur og við innleiðum allt of seint af því að það er bara ekki tími til að halda áfram með þær — ég held einmitt að þetta yrði til þess að hér yrðu vandaðri vinnubrögð. Ef mál eru þannig að þau eru tekin í gíslingu höfum við málþófstæki til að vekja athygli á því. Við höfum fullt af verkfærum. Ég hef engar áhyggjur af því að þetta taki möguleikann frá minni hlutanum til að beita sér af fullum krafti. Ég held miklu frekar að þetta yrði til þess að við myndum fá mun fleiri mál samþykkt sem eru þjóðþrifamál og við erum öll sammála um að eigi að afgreiða hér.

Ef það eru aftur á móti mál sem ljóst er að ekki er meiri hluti fyrir á Alþingi er engin ástæða fyrir meiri hlutann að óttast að fella þau. Ég held að þetta myndi í raun sýna okkur heiðarlegra þing en við höfum séð áður.