146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að segja að ég er ekki jafn áhyggjulaus varðandi þetta og hv. þingmaður. Auðvitað er alveg rétt að meiri hlutinn hverju sinni getur fellt öll þau mál sem hann vill, en það er ákveðið pólitískt tæki að geta staðið í þessum ræðustól og talað fyrir málum. Það er tæki sem ég er ekki tilbúin til að gefa frá mér ef ég held að það sem ég fái í staðinn sé ekki almennilegt.

Ég er ekki að segja að það sé endilega raunin með þetta þingmál. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu er ég sammála hv. þingmanni um að bæta þingstörfin. En mér finnst þetta vera mikilvægt atriði, þ.e. að ekki sé hægt að kæfa pólitíska umræðu í nefnd, bara með öfugum formerkjum við það sem er núna. Mér finnst í það minnsta mikilvægt að það sé skoðað mjög vel í meðförum nefndarinnar sem fær þetta mál til umfjöllunar. Þetta er ekki sagt í neinum leiðindum vegna þess að ég vilji þæfa málið eða gera það á einhvern hátt tortryggilegt. Þetta er bara þáttur sem mér finnst skipta mjög miklu máli inn í hina lýðræðislegu umræðu.

Mér finnst að við þurfum alltaf að fara með opin augun inn í breytingar því að jafnvel þó að það sem verið er að leggja til sé gott geta alltaf einhverjar afleiðingar fylgt breytingum sem voru kannski ekki séðar fyrir. Þetta er bara eitt af þeim atriðum sem mér finnst mjög mikilvægt að við íhugum og skoðum við meðferð málsins.