146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og margt sem kom þar fram sem ég er sammála. Ég af öllum þingmönnum sem er stjórnarandstöðuöldungurinn, enginn þingmaður verið eins lengi samfellt í stjórnarandstöðu eins og ég, þannig að ef ég hef ekki áhyggjur hafandi verið í minnstu flokkunum hérna í tvö kjörtímabil þá held ég að ekkert okkar ætti að hafa miklar áhyggjur. Auðvitað er það þannig að ef maður tekur svona mál og gerir svona breytingar myndi maður aldrei gera það til þess að skerða möguleika þingmanna á að beita sér af fullum krafti á þinginu.

Mig langaði í ljósi þess að við vorum að tala um þennan fund sem við báðar sátum á í morgun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að nefna að þar kom einmitt fram að það virðist vera einhver skringileg krafa um að það eigi að leggja fram einhvern aragrúa af málum. Það kemur ekkert endilega bara frá ráðherrum, þetta er krafa úti í samfélaginu og er eins og merki um vinnusemi að leggja fram tíu mál en ekki eitt mjög vel unnið mál. Þetta er eitthvað sem við getum kannski hjálpað framkvæmdarvaldinu með, að benda framkvæmdarvaldinu á að það er ekki þörf á og við munum ekki núa þeim því um nasir ef þeir leggi ekki fram 150 mál á einni viku.

Það verður að viðurkennast og mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um það að þegar svona mörg mál koma inn þá nær maður ekkert að vinna þau almennilega í nefndunum. Maður nær ekki að hafa almennilega yfirsýn út af því að það er verið að taka kannski mjög ólík mál fyrir í sömu nefndinni og fá gesti á víxl um þau mál og nefndin les kannski í gegnum 150 umsagnir um umdeild mál. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að það sé nauðsynlegt á alla kanta að (Forseti hringir.) breyta hugarfarinu um það hvernig við eigum að inna þessa vinnu af hendi.